Búið að opna gamla veginn yfir Vaðlaheiði

Vegna óvenju góðrar tíðar er búið að opna gömlu leiðina yfir Vaðlaheiði. Þetta er fyrr en oft áður. Samkvæmt upplýsingum á Facebooksíðu Vaðlaheiðargangna er búið að grófhefla veginn svo það er ekkert því til fyrirstöðu að fá sér bíltúr yfir heiðina.
Mörgum finnst vegurinn yfir Vaðlaheiði vera sjarmerandi en hann bugðast í mjúkum sveigjum upp heiðina og býður upp á gott útsýni yfir Eyjafjörð og Fnjóskadal. Eftir að vegurinn um Víkurskarð var lagður og Vaðlaheiðargöng tekin í notkun hefur gamli vegurinn yfir Vaðlaheiði verið vinsæll hjá göngu- og hestafólki. Þá er leiðin kjörin fyrir bíleigendur sem ekki eru að flýta sér og vilja njóta þessa fornfræga vegar sem tengir saman Fnjóskadal og Eyjafjörð.
Vað er á leiðinni sem er fært öllum bílum. Mynd: Vaðlaheiðargöng/Facebook