Fara í efni
Fréttir

BSO fær lengri frest til að flytja starfsemina

BSO, eða Bifreiðastöð Oddeyrar eins hún heitir fullu nafni. Mynd: Þorgeir Baldursson.
Bæjarráð ákvað fyrr í vikunni að veita BSO lengri frest en áður hafði verið gefinn til að flytja starfsemi sína og húsakost. Fyrir lá erindi frá stjórnendum BSO þar sem óskað var eftir framlengingu á stöðuleyfi leibugílastöðvar við Strandgötu. Þrír stjórnarmenn BSO mættu á fund bæjarráðs ásamt Pétri Inga Haraldssyni skipulagsfulltrúa.
 
Forsaga málsins er nokkuð löng, en nú síðast í mars á þessu ári fól meirihluti skipulagsráðs skipulagsfulltrúa að hefja undirbúning að auglýsingu lóða við Hofsbót 1 og 3. Í kjölfarið hófst samráð við Vegagerðina og fleiri sem varð til þess að gerð var minniháttar breyting á lóðum við Hofsbót og Skipagötu sem liggja samsíða Glerárgötunni. Skipulagsráð fól skipulagsfulltrúa fyrr í þessum mánuði að undirbúa gerð útboðsskilmála og kynna áformin jafnframt fyrir umhverfis- og mannvirkjasviði og Norðurorku. Í bókun bæjarráðs frá 21. desember kemur fram að ljóst sé að lóðir við Hofsbót 1 og 3 verði auglýstar á komandi ári, en jafnframt var samþykkt að veita BSO lengri frest til að fara af svæðinu. Berist tilboð í lóðina Hofsbót 1 sem bæjarráð samþykkir þarf BSO að fara með starfsemi sína og húsakost af svæðinu með sex mánaða fyrirvara.
 
Þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem vera BSO á þessum stað er framlengd. Í september 2022 greindi Akureyri.net frá því að BSO yrði á sínum stað út maí á næsta ári, s.s. maí 2023. Áður hafði Akureyri.net einnig greint frá því í september 2021 að BSO væri gert að fara af lóðinni næsta vor, s.s. vorið 2022. Í þeirri sömu frétt er upplýst að samkvæmt fundargerð bæjarráðs frá þeim tíma hafi mannvirki leigubifreiðastöðvarinnar verið með bráðabirgðastöðuleyfi með sex mánaða uppsagnarfresti frá árinu 1955 og að enginn leigusamningur liggi fyrir.