Fara í efni
Fréttir

„Brjálað að gera“ á dekkjaverkstæðum

Nóg er til af dekkjum á Akureyri, og fjöldi starfsmanna sem fjarlægir þau og kemur aftur á sinn stað þessi dægrin. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Fjöldinn gerir sér ferð á dekkjaverkstæði bæjarins þessa dagana, áður en brestur á með norðanhvelli og snjókomu á morgun. Akureyri.net leit í heimsókn á þrjú verkstæði og alls staðar var sama sagan: brjálað að gera!

Bóka þarf tíma bæði hjá dekkjaverkstæði Hölds og Nesdekki, þar var allt fult í gær og fyrstu dagar næstu viku fullbókaðir. Hjá Dekkjahöllinni er fyrirkomulagið þannig að menn mæta á staðinn og bíða í röð. Þegar mest var biðu ökumenn í nærri 60 bílum í gær, og sú var raunin lungann úr deginum. Alls staðar var í nógu að snúast frá því í bítið og svo verður áfram. Veðrið verður afar slæmt á morgun en lagast svo á ný um tíma. Akureyringar, sem eru öllu vanir, vita að allur er varinn góður og vilja koma vetrardekkjunum undir ökutækin til að lenda síður i vandræðum ef snjóar og frystir.