Fara í efni
Fréttir

Breytingar á húsnæði og rekstri Backpackers

Sjónvarpsskjám hefur fjölgað á staðnum í takt við stækkunina og verða þeir fjórir talsins. Arineldurinn logar á skjánum þegar ekki þarf að sýna mikilvæga íþróttaleiki. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Akureyri Backpackers hefur fengið allsherjar andlitslyftingu. Þægilegri stólar og sófar eru komnir í veitingasalinn, leikhorn með píluspjöldum er í vinnslu og verið er að leggja lokahönd á nýjan bar þar sem boðið verður upp á léttvín á krana.

Nýir rekstraraðilar tóku við Akureyri Backpackers þann 1. október síðastliðinn eins og Akureyri.net greindi frá á sínum tíma – sjá hér

Síðan þá hafa verið gerðar töluverðar breytingar á húsnæðinu og rekstrinum. Fyrir það fyrsta var KEA keypt út úr rekstrinum og er staðurinn því alfarið á könnu félagsins SBK ehf. sem er í eigu Siguróla Kristjánssonar, Elfu B. Ragnarsdóttur, Kristjáns Sigurólasonar, Arneyjar Ásvaldsdóttur, Birkis Hermanns Björgvinssonar og Ágústu Sveinsdóttur.

Siguróli og Kristján ásamt þjóninum Jack frá Englandi. Næstu daga ætla þeir að leggja áherslu á Carlsberg á krana sem Siguróli segir að hafi vikið svolítið fyrir öðrum bjórtegundum, en Carlsberg var mjög vinsæll hér áður fyrr enda klassískur lagerbjór.

Meiri mýkt, meiri kósýheit

Þá hefur félagið leigt allt húsið, Hafnarstræti 98, undir starfsemina. Nýlega var opnað yfir í verslunarhúsnæðið við hliðina, þar sem áður var rekin verslunin Mt Hekla. Við þetta stækkaði veitingasalur Backpackers til muna og er þar nú pláss fyrir 80-90 manns í sæti.

Samhliða þessari stækkun hefur útlit Backpackers jafnframt tekið stakkaskiptum. Þrjú hugguleg sófahorn prýða nú staðinn, skemmtilegir skrautmunir og nýir og þægilegri stólar. Siguróli segir að staðurinn sé þó ekki að rembast við að vera neitt annað en Backpackers nema nú sé staðurinn kominn „skrefi lengra“ eins og hann orðar það. „Það er annar bar að bætast við veitingasalinn. Þar erum við að spá í að vera með búbblur eða hvítvín á krana og bætum líka við tveimur bjórtegundum á krana. Við viljum áfram fá fleiri Akureyringa hingað inn. Hingað til hefur Akureyri Backpackers kannski verið meira karllægur staður en ég sé fyrir mér að staðurinn höfði til fleiri kvenna eftir breytingarnar, en auðvitað er þetta bara blandað hérna,“ segir Siguróli. Hann segir að heimamenn hafi verið duglegir að mæta í hádegismat til þeirra en nýr matseðill er væntanlegur í næstu viku með nokkrum nýjum réttum.

Aðgengi fyrir barnakerrur og hjólastóla er orðið enn betra á Akureyri Backpackers eftir að veitingasalurinn var stækkaður. Staðurinn er orðinn hinn huggulegasti með sófum og skemmtilegum skrautmunum.

Leikhorn með píluaðstöðu

Þá hafa „Hostel“ áherslurnar á gistiheimilinu minnkað með nýjum rekstraraðilum en herbergjum á tveimur af þremur hæðum hefur verið breytt úr stórum herbergjum sem margir deila í tveggja manna herbergi. Gisting í kojum er þó enn í boði á einni hæð. Önnur breyting á Akureyri Backpackers er sú að verið er að setja upp píluaðstöðu þar sem áður var eldhús fyrir hostel gesti. „Við sjáum fyrir okkur að bjóða þar upp á leikhorn með píluspjöldum og jafnvel billjard ef það er pláss,“ segir Siguróli.

Molafeðgar, Siguróli og Kristján, slaka á í eitt augnablik í einum af sófum staðarins. Þeir hafa staðið í stórræðum undanfarið við breytingar á staðnum.