Fara í efni
Fréttir

Breytingar á Grenivík, Laugum og í Reykjahlíð

Í byrjun september hyggst Pósturinn gera breytingar á póstþjónustu á Grenivík, Laugum og í Reykjahlíð. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að til standi að loka samstarfspósthúsunum á þessum stöðum en leggja þess í stað meiri áherslu á annars konar þjónustu.

Hörður Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Póstinum, segir að lögð sé áhersla á að þróa þjónustuna í takt við breyttar þarfir og kröfur neytenda. „Dregið hefur úr eftirspurn eftir afgreiðsluþjónustu pósthúsa. Þar af leiðandi er lagt upp úr að þróa annars konar lausnir. Stafræn umbreyting kallar á nýja nálgun í þjónustu og við verðum að bregðast við því. Um leið ber okkur beinlínis skylda til að leita hagkvæmra leiða í rekstrinum og því eru breytingar sem þessar óhjákvæmilegar,“ segir hann.

Þjónustan endurskipulögð

Pósturinn hefur lagt höfuðáherslu á að endurskipuleggja þjónustu fyrirtækisins með viðskiptavini í forgrunni, að því er segir í tilkynningunni. „Hluti af þeirri vegferð eru fleiri sjálfvirkar afhendingarleiðir. Smám saman fjölgar afhendingarstöðum vítt og breitt um landið því það skiptir máli að bjóða upp á þétt dreifinet,“ segir Hörður.

Ennfremur segir að Pósturinn bjóði upp á fjölbreyttar þjónustuleiðir í takt við nýjar áherslur. „Við erum óendanlega þakklát fyrir það góða starf sem hefur verið innt af hendi á þessum starfsstöðvum og þrátt fyrir þessar breytingar er Pósturinn ekki að fara neitt. Við ætlum okkur að sjálfsögðu að halda áfram að veita góða þjónustu. Við erum með póstbox víða á Norðurlandi og við hvetjum alla til þess að nýta sér það póstbox sem hentar þeim hvað best,“ segir Hörður Jónsson.

Hægt að fá heimsent

Auk póstboxa mun landpósturinn halda áfram að sjá um dreifingu. „Þeir sem það kjósa geta sem fyrr óskað eftir heimsendingu, póstbíllinn verður á ferðinni alla virka daga í Reykjahlíð og á Laugum en tvisvar í viku á Grenivík. Fyrir þá sem eru á ferðinni, og vilja nýta sér afgreiðslu á pósthúsi, má sjá afgreiðslustaði á vef Póstsins,“ segir í tilkynningunni. „Á posturinn.is má finna ítarefni og upplýsingar um fjölbreytta þjónustu Póstsins. Auk þess er alltaf velkomið að hafa samband við þjónustuver í síma 580 1000 eða spjallköttinn Njál á posturinn.is. Á næstu vikum munu íbúar á svæðinu fá nánari upplýsingar um hvernig þjónustunni verður hagað í framhaldinu.“