Fara í efni
Fréttir

Bráðalæknir á vakt um fjarfundabúnað frá Bandaríkjunum

Bráðalæknir hefur sinnt störfum fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri í gegnum fjarfundabúnað frá Bandaríkjunum. Sagt er frá málinu á vef RÚV og Sjúkrahússins á Akureyri. 

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk, fjallaði meðal annars um það í ávarpi sínu á ársfundi sjúkrahússins á dögunum að heimsfaraldur covid-19 hafi tekið mikinn toll af starfsfólki sjúkrahússins, en um leið sé þar um mikinn lærdóm sem draga megi af þessu tímabili og nýir möguleikar hafi opnast í þjónustunni. Á meðal þess sem tekið hefur verið upp í framhaldi af heimsfaraldrinum og þeim áskorunum sem sjúkrahúsið hefur staðið frammi fyrir í mönnun er að nýta ráðleggingar og aðstoð bráðalæknis í Bandaríkjunum í gegnum fjarfundabúnað.

Í frétt Rúv er rætt við Jón Pálma Óskarsson, yfirlækni á bráðadeild, sem segir þjónustuna ekki síðri en sannarlega öðruvísi þegar bráðalæknir er á vakt í gegnum tölvu. Jón Pálmi kveðst ekki vita til þess að bráðalækningum hafi áður verið sinnt í fjarvinnu hér á landi. „Aðgangurinn að sjúklingnum er þá í gegnum myndavél. Hann fer þá bara inn með hjúkrunarfræðingi eða unglækni, í gegnum tölvu, og getur leiðbeint um skoðun og spurt spurninga. Hann getur þá sett upp meðferð og plan í samráði við starfsfólk hér“, segir Jón Pálmi í frétt RÚV.