Fara í efni
Fréttir

Blóðsykursmæling í boði á Glerártorgi í dag

Í dag, laugardag, gefst almenningi kostur á að fara í blóðsykursmælingu á Glerártorgi. Mælingin hefst klukkan 13.00 og stendur formlega til 15.00 en lengur ef enn verður fólk á staðnum. Það eru Samtök sykursjúkra á Norðurlandi í samstarfi við Lionsklúbbana á Akureyri og Eyjafjarðarsveit sem standa fyrir framkvæmd mælinganna.

Tíu til tuttugu manns greinast

Á hverju ári frá því árið 2014 hafa þessir aðilar boðið upp á blóðsykurmælingar fyrir utan þrjú þar sem Covid kom í veg fyrir að það væri hægt.

Aðsóknin hefur alltaf verið mjög góð en um 500-700 manns hafa komið á Glerártorg til að láta mæla blóðsykurinn hverju sinni. Af þeim fjölda greinast 10-20 manns með sykursýki.

Orkudrykkir taldir valda sykursýki

Í samtali við Akureyri.net sagði Jóhann Gunnarsson, formaður Samtaka sykursjúkra á Norðurlandi að orkudrykkir og gosdrykkir væru taldir vera ein ástæða þess að sykursýki er vaxandi vandamál en þeir valda sykursýki II. Hann sagði enn fremur að ættgengi, yfirþyngd og hreyfingarleysi væru orsakavaldar.

Lyf við sykursýki orðin miklu betri

Um 70 félagsmenn eru í Samtökum sykursjúkra á Norðurlandi en þau voru stofnuð árið 1972. Sjálfur greindist formaðurinn árið 1999 en segir að í dag séu lyf orðin svo miklu betri; sem gerir líf sykursjúkra mun auðveldara en áður.

Framkvæmd blóðsykursmælinga á Glerártorgi er öll unnin af sjálfboðaliðum innan heilbrigðisgeirans Ferlið tekur mjög stutta stund. Lítils háttar stunga og áreiðanleg niðurstaða úr blóðsykursmæli fæst á fimm sekúndum! Ungir sem aldnir sem leið eiga um Glerártorg í dag hafa því gott tækifæri til að kanna stöðuna á sínum blóðsykri.