Blikkrás fagnar 40 ára afmæli í dag
Blikkrás á Akureyri fagnaði 40 ára afmæli í dag og af því tilefni var viðskiptavinum boðið í afmæliskaffi í morgun. Ottó Biering Ottósson framkvæmdastjóri Blikkrásar segir nóg að gera hjá fyrirtækinu og mörg tækifæri séu til frekari vaxtar.
Oddur Helgi Halldórsson blikksmíðameistari og fjölskylda hans stofnuðu Blikkrás árið 1986 en Ottó og hans fjölskylda keyptu fyrirtækið fyrir tveimur árum. „Þetta hefur gengið mjög vel, það er mjög mikill vöxtur í þessari starfsemi og mikið um tækifæri framundan,“ sagði Ottó í spjalli við akureyri.net. Starfsemi Blikkrásar er afar fjölbreytt og snýst ekki bara um blikksmíði og til dæmis nefnir Ottó vaxandi eftirspurn eftir loftræstikerfum í allar tegundir bygginga.
Starfsmenn fyrirtækisins eru 24 í dag og starfsemin víða um land. Og verkefnin eru næg. „Þetta er spurning um tíma og mannskap, til að sinna þessu. Okkur hefur fjölgað svolítið en þurfum fleira fólk,“ sagði Ottó Biering Ottósson.