Fara í efni
Fréttir

Bleik kvöldopnun á Glerártorgi í kvöld

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis verður með sölubás á Glerártorgi í kvöld. Mynd: aðsend

Í tilefni af Bleikum október verður bleik kvöldopnun á Glerártorgi í kvöld, 9. október, í samstarfi við Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis. Opið verður frá 10-22. „Það verður sannarlega líf og fjör alla helgina þar sem vinkonur, vinir, pör og fjölskyldur koma saman og njóta þess að eiga góðar stundir á Glerártorgi,“ segja Elva Ýr Kristjánsdóttir og Kristín Anna Kristjánsdóttir, verkefnastjórar markaðsmála. „Kvöldopnunin hefur verið ein sú vinsælasta á Glerártorgi undanfarin ár en það verða frábær tilboð í verslunum Glerártorgs alla helgina.“ 

Krabbameinsfélagið verður með sölubás á svæðinu frá kl. 15-17 og 20-22 og Brakkasamtökin sýna áhrifaríka ljósmyndasýningu: Of ung fyrir krabbamein – Saga Sóleyjar sem stendur út október. Gestir eru hvattir til þess að kíkja í bleikan kassa staðsettan hjá sýningunni með skemmtilegum leik. 

 

Frá bleikri kvöldopnun í fyrra. Mynd: aðsend 

Salsa, spádómar, lifandi tónlist og margt fleira

„Það verða fjölbreyttar kynningar meðal annars frá BIO Effect, Halldóri Jónssyni, Vera Design, Sorgarmiðstöðinni og einnig verða kynningar og ráðgjöf í Lyf og heilsu,“ segir Elva Ýr. „Þar verður boðið upp á fría snyrtingu og lökkun sem fylgir með í kaupbæti ef verslað er OPI naglalakk. Blush verður með sölubás og lukkuhjól fyrir þá sem þar versla eftir kl. 18.“ 

Þá munu fyrirtæki á borð við Kjörís að gefa Bestís eftir kl. 16:00, Heildverslunin Steindal að bjóða upp á Happy Monkey eftir kl. 16, Töst og Rosé Lemonade eftir kl 19:30 og MS með óðalsosta smakk. Sunna Spákona spáir fyrir gesti og gangandi milli 20:00 og 22:00 og Salsa North verður með danskennslu kl. 20:00 í salsa og bachata. Góðir tónar munu óma um húsið fram eftir kvöldi en Kristján Edelstein og Stefán Ingólfs munu sjá um huggulega stemningu á göngugötunni og DJ Helga Margrét spilar góða tóna í Lindex, segir Kristín Anna, en það er ljóst að nóg verður á boðstólnum fyrir gesti kvöldsins. Dagskráin hefst um hádegi og stendur fram eftir kvöldi.

Geðvernd og PubQuiz um helgina 

„Það verður svo fleira á döfinni hjá okkur á Glerártorgi um helgina, en föstudaginn 10. Október er alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn og verður kynning á starfsemi Grófarinnar og Geðverndarfélaginu milli kl. 14 og 17:30,“ segir Elva Ýr. „Laugardaginn 11. Október verður svo PubQuiz með Ása Guðna í Iðunni Mathöll frá kl. 20-22. Tilvalin skemmtun fyrir alla.“

 

Margmenni við sölubás KAON á bleiku kvöldi í fyrra. Mynd: aðsend