Fara í efni
Fréttir

Blak: KA hafði betur gegn Vestra vestra

KA lagði Vestra í oddahrinu í viðureign liðanna á Ísafirði. Mynd: Facebook-síða KA.

KA sótti Vestra heim á Ísafjörð í efstu deild karla í blaki í gær og vann nauman 3:2 sigur eftir hörkuviðureign. Enn er allt í járnum í toppbaráttu Unbrokendeildarinnar og KA er í hópi fjögurra liða sem eru þar í hnapp.

Framan af viðureigninni í gær benti fátt til að hún yrði spennandi. KA skoraði sex fyrstu stigin í fyrstu hrinunni og vann nokkuð öruggan 25:20 sigur. Næsta hrina þróaðist á svipaðan hátt, KA náði strax forystunni og hélt henni út hrinuna, sem vannst 25:21. Í þriðju hrinu benti flest til þess að KA myndi klára leikinn þegar KA var 21:14 yfir en þá hrukku heimamenn loksins í gang. Vestri náði með ótrúlegri seiglu að vinna muninn upp og landa sigri í maraþonhrinu, 30:28.

KA-menn virtust slegnir út af laginu því Vestri vann fjórðu hrinu örugglega, 25:18, og staðan skyndilega orðin 2:2 og allt gat gerst. Oddahrinan var hins vegar allan tímann í öruggum höndum KA og með 15:9 sigri í henni tókst KA að landa sigri í viðureigninni, 3:2.

Liðin í deildinni hafa leikið mismarga leiki og KA er nú með 33 stig í 3. sæti. Liðin fyrir ofan hafa hins vegar leikið fleiri leiki en KA. Næsti leikur er gríðarlega þýðingarmikill í toppbaráttunni en þá sækir KA Hamar heim í Hveragerði. Leikurinn fer fram sunnudaginn 1. febrúar og í til að nota ferðina mun viðureign þessara sömu liða í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar vera leikinn daginn áður.

Staðan í Unbroken-deild karla