Fara í efni
Fréttir

Bjargaði manni í andnauð á Old Trafford

Gunnar Rúnar Ólafsson, bráðatæknir og varaslökkviliðsstjóri á Akureyri, gleymir seint skoðunarferð á fótboltavöllinn Old Trafford í Manchester í byrjun mánaðarins. Þar bjargaði hann manni í andnauð sem féll meðvitundarlaus niður á leikvanginum. Ríkisútvarpið greindi frá þessu í vikunni og birti viðtal við Gunnar.

„Gunnar fór ásamt þremur sonum sínum á leik Manchester United og Everton 2. október. Í skoðunarferð um Old Trafford leikvanginn, daginn fyrir leik, féll starfsmaður vallarins meðvitundarlaus niður rétt fyrir framan þá feðga,“ segir á vef RUV. Gunnar lýsir málavöxtum í viðtali við Ágúst Ólafsson fréttamann; eftir að Gunnar hafði komið önduninni aftur í gang kom í ljós að nærri eins og hálfs tíma bið var eftir sjúkrabíl svo hann og yfirmaður vallarmála á Old Trafford óku hinum veika á sjúkrahús. Á meðan biðu synir hans í góðu yfirlæti á vellinum.

Gunnar er alveg viss um að kunnátta hans og reynsla hafi bjargað því að ekki fór verr og maðurinn er á batavegi. „Ég vil kannski ekki ganga svo langt að segja að ég hafi bjargað lífi hans. En ég allavega klárlega hjálpaði til við að hann varð ekki skertur af þessu,“ segir han í viðtalinu við Ágúst Ólafsson. 

Hér er hægt að sjá viðtalið við Gunnar – sem getur slegið á létta strengi fyrst allt fór vel, og upplýsir að hann haldi með Liverpool, erkifjendum Manchester United. Hann greinir reyndar líka frá því að yfirmaður vallarmála á Old Trafford heldur með Manchester City!