Fara í efni
Fréttir

Bjarg afhendir 25 íbúðir við Guðmannshaga

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, Anna Júlíusdóttir, varaformaður, Guðrún Kristjánsdóttir, starfsmaður á leigusviði Bjargs, og Sigurður Halldór Örnólfssoni, sérfræðingur á framkvæmdarsviði Bjargs. „Vert er að taka fram að þau voru að sjálfsögðu öll skælbrosandi er myndin var tekin,“ segir á heimasíðu Einingar-Iðju, þar sem myndin birtist!

Bjarg, íbúðafélag á Akureyri, afhenti í gær 25 nýjar íbúðir í Guðmannshaga 2, í Hagahverfi, nýjasta hverfi bæjarins, syðst á Brekkunni. Bjarg er húsnæðis og sjálfseignastofnun, stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og því er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Fyrstu leigjendur fluttu inn í nóvember og nú hafa nær allar íbúðir í húsinu verið afhentar; tvær eru enn lausar, en Bjarg mun leigja út 31 íbúð við Guðmannshaga.

Á heimasíðu Einingar-Iðju segir af því er nokkrir formenn stéttarfélaga í bænum skoðuðu íbúðirnar áður en afhending fór fram, þar á meðal formaður og varaformaður félagsins.

Íbúðirnar eru glæsilegar, að mati Björn Snæbjörnssonar, formanns Einingar-Iðju, sem segir það frábæran áfanga að flutt sé inn í svo margar íbúðir, í fyrstu blokkinni sem Bjarg byggir á Akureyri. „Það er búið að vera baráttumál verkalýðshreyfingarinnar til margra ára að fá ódýrara leiguhúsnæði. Í okkar síðustu Gallup könnun sem gerð var í lok síðasta árs kom fram að um 25% okkar félagsmanna eru á leigumarkaðnum þannig að eitt af stóru verkefnum félagsins er að ýta á að byggðar verði hagvæmari leiguíbúðir. Nú verður farið á fullt að ýta á Bjarg að byggja aðra blokk á Akureyri. Bjarg er með samkomulag við Akureyrarbæ um að byggja í bænum allt að 70 íbúðir og við eigum bara að uppfylla það. Það er nóg framboð af þeim sem vantar ódýrt leiguhúsnæði á Akureyri,“ segir Björn.

Nýja blokkin, Guðmannshagi 2.

Starfsmenn verktakans, Lækjarsels, í kaffipásu í gær. Formaður og varaformaður Einingar-Iðju spjölluðu við þá og óskuðu til hamingju með verkið. Myndir af heimasíðu Einingar-Iðju.