Fara í efni
Fréttir

Bítlaferð með Jóni í beinu flugi frá Akureyri

Jón Ólafsson tónlistarmaður fyrir utan hinn goðsagna Cavern klúbb í Liverpool þar sem hann heldur tónleika fyrir íslenska hópinn.

Ferðaskrifstofan TA Sport í Reykjavík hefur undanfarin ár boðið upp á ferðir með Jóni Ólafssyni tónlistarmanni til „Bítlaborgarinnar“ Liverpool á Englandi og nú stendur fólki í fyrsta skipti til boða að fara í slíka ferð í beinu flugi frá Akureyri. Flogið verður með easyJet til Manchester laugardaginn 21. mars næstkomandi og heim aftur þriðjudaginn 24. mars.

„Þessar ferðir hafa notið mikilla vinsælda og mér finnst tímabært að gefa fólki kost á því að fara líka beint að norðan,“ segir Júlíus Geir Guðmundsson, framkvæmdastjóri TA Sport; Júlli í Nettó, eins og hann var gjarnan kallaður þegar hann var stjórnvölinn í Nettó á Akureyri á sínum tíma!

Við hliðið að Strawberry Field garðinum í Liverpool. Bítlarnir syngja um svæðið í mjög vinsælu, samnefndu lagi.

Fjórmenningarnir í Bítlunum – The Beatles – voru allir frá Liverpool og óhætt er að segja að sögu þessarar kunnustu hljómsveitar sögunnar sé gert hátt undir höfði í heimaborginni.

„Í öllum okkar hópferðum leggjum við aðeins til ákveðinn ramma tengdan einstökum þáttum ferðar. Í svona hópum eru pör og vinahópar sem vilja gera hlutina á eigin forsendum og hafa frelsi til slíks í stuttri ferð,“ segir Júlíus Geir en fólki stendur m.a. til boða að fara í skoðunarferð um Bítlaslóðir með fararstjóra. „Hápunktur ferðarinnar er kvöldskemmtunin „Bítlarnir af fingrum fram í Cavern Club“ – sögustund í tónum og tali með Jóni Ólafssyni,“ segir Júlíus Geir en það var í hinum goðsagnakennda Cavern klúbbi sem Bítlarnir slógu í gegn og staðurinn var þeirra „heimavöllur“ framan af.

Fastur punktur í tilveru Jóns

Cavern Club við Mathew stræti, þeirri miklu gleðigötu, er magnaður staður á mörgum hæðum neðanjarðar og þar fetar Jón Ólafsson í fótspor Bítlanna með spili og söng fyrir íslenska hópinn.

„Þessar ferðir eru ákaflega vel settar upp að mínu áliti enda eru þær orðnar fastur punktur í tilveru minni. Undanfarin ár hefur verið farið tvisvar á ári til Liverpool þar sem farið er í skemmtilegar skoðunaferðir tengdar sögu Bítlanna. Engu að síður er ágætis frítími inn á milli,“ segir Jón við akureyri.net. „Þetta er ótrúlega skemmtileg borg og við erum staðsett nánast í hjarta Liverpool þar sem allt er í göngufæri. Mitt hlutverk er einfaldlega að skemmta Íslendingum með tónleikum í Cavern Club. Þar segi ég sögur af Bítlunum og spila ólíklegustu lög úr þeirra smiðju.“

Rakarastofan við Penny Lane sem Bítlarnir syngja í laginum sem ber heiti götunnar: „In Penny Lane there is a barber showing photographs“. Efri myndin til hægri: ferðalangar við æskuheimili Pauls McCartney, sú neðri er tekin í Cavern Club.

Farþegar í Bítlaferðinni gista á Novotel, 4 stjarna hóteli í miðborg Liverpool, því sama og hóparnir sem fóru á vegum akureyri.net og TA Sport á leiki með knattspyrnuliði Liverpool á síðustu leiktíð. Hótelið er steinsnar frá Liverpool One, helsta verslunarsvæði miðborgarinnar, hafnarsvæðinu Albert Dock og Bítlasafninu The Beatles Story og fleiri áhugaverðum söfnum af ýmsu tagi.

TA Sport á netinu