Fara í efni
Fréttir

Betri brunavarnir í Kjarnaskógi

Eldvarnarstígurinn mun nýtast sem flóttaleið á milli svæða ef upp kemur eldur í skóginum. Gestir munu þó einnig geta notið þess að ganga um hann dagsdaglega og Ingólfur reiknar líka með því að hann verði troðinn í vetur. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur í samvinnu við tjaldsvæðið á Hömrum og Akureyrarbæ  unnið að bættum brunavörnum í Kjarnaskógi. Slökkvitæki voru sett í öll grillhúsin í skóginum í fyrra og nú hefur klöppum (verkfæri til að hefta smærri gróðurelda) verið komið fyrir við alla aðalinngangana í skóginn. Þá er búið að gera nýjan stíg frá tjaldsvæðinu á Hömrum og niður í skóginn sem nýtast mun sem flóttaleið á milli svæði ef upp kemur eldur.

Klöppum hefur verið komið upp víða í Kjarnaskógi en áhaldið er notað til þess að slökkva minni gróðurelda.

„Við erum að koma upp korti varðandi það hvernig við viljum að fólk beri sig að og hvar fólk á að safnast saman í tilfelli eldsvoða. Slökkviliðið hefur kíkt á starfsfólk okkar svo það er orðið upplýst um þessi mál,“  segir Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga við Akureyri.net.

„Á landsvísu eru menn að gera sér grein fyrir að gróður- og skógareldar eru alvöru mál. Næsta skref hjá Skógræktarfélaginu er að breiða þetta út í reitina okkar en við erum með skógarreiti á 10 stöðum og samkomustaði,“ segir Ingólfur og bætir við að þó eldvarnarstígurinn sé hugsaður sem tenging á milli svæða í tilfelli eldsvoða þá mun hann nýtast gestum skógarins vel. „Þarna er komin greið og góð leið sem auðveldar fólki að fara um skóginn og þessi stígur verður dásamlegur þegar við förum að troða gönguskíðabrautirnar í vetur.“