Fara í efni
Fréttir

Best ef bærinn hefði haldið rekstri áfram

Fyrsti og besti kostur, varðandi framtíð Öldrunarheimila Akureyrar, var að Akureyrarbær héldi rekstrinum áfram, segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Því miður hafi ekki náðst samkomulag um það, þótt á það hafi verið lögð rík áhersla, en nú sé „ekki raunhæft að hafa aðrar væntingar til starfsmannahaldsins og breytinga á mannahaldi rekstraraðilans en að starfað sé á grundvelli gildandi laga og kjarasamninga.“

Þetta kemur í skriflegu svari ráðherra við spurningum Akureyri.net. Ráðherra voru sendar sömu spurningar og bæjarfulltrúum og bæjarstjóra á Akureyri fyrir nokkrum dögum. Þau svör sem þegar hafa borist hafa birst á vefnum.

Of stór eining til að sameina HSN

Spurt var:

  • Kemur það ráðherra á óvart að fólki með langa starfsreynslu skuli sagt upp, væntanlega til þess að ráða starfsfólk á lægri launum?
  • Óttaðist hún ekki að þetta myndi gerast þegar samið var við einkafyrirtæki um rekstur heimilanna?
  • Hefði hún, ráðherra VG, heldur kosið að Akureyrarbær héldi áfram rekstri heimilanna en að samið væri við einkafyrirtæki? Var hún sátt við það á sínum tíma að samið væri við einkafyrirtæki um reksturinn?
  • Eftir á að hyggja, telur ráðherra útilokað að SÍ og Akureyrarbær hefðu getað samið á viðunandi hátt fyrir báða aðila?

Skriflegt svar, sem Akureyri.net, barst frá aðstoðarmanni ráðherrans í gær, er svohljóðandi:

„Fyrsti og besti kosturinn að mati heilbrigðisráðherra hefði verið að Akureyrarbær hefði haldið áfram rekstri Öldrunarheimila Akureyrar. Rík áhersla var lögð á að ná samkomulagi um það en því miður tókst það ekki. Skoðaður var sá möguleiki að fela Heilbrigðisstofnun Norðurlands að annast reksturinn. Niðurstaðan var sú að rekstrareiningin væri of stór til að sameina hana heilbrigðisstofnuninni og rekstrinum betur fyrir komið sem einni rekstrareiningu í sjálfstæðri stofnun. Sú leið sem var að lokum farin þegar reynt hafði verið til þrautar varðandi áðurnefnda kosti felur í sér að nýr rekstraraðili ber ábyrgð á rekstrinum og þar með töldu starfsmannahaldi Öldrunarheimila Akureyrar. Þetta er staðreynd málsins og því ekki raunhæft að hafa aðrar væntingar til starfsmannahaldsins og breytinga á mannahaldi rekstraraðilans en að starfað sé á grundvelli gildandi laga og kjarasamninga.“