Fara í efni
Fréttir

Bensínstöð Orkunnar í Naustahverfi fjarlægð

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Sjálfsafgreiðslustöð Orkunnar við Kjarnagötu 2 hefur verið fjarlægð. Stöðin hefur verið á planinu við Bónus í Naustahverfi frá árinu 2009 og í samtali við Akureyri.net segir Brynja Guðjónsdóttir, markaðsstjóri Orkunnar, að ástæða þess að stöðin hafi verið fjarlægð sé að lóðarhafinn Hagar hf. hafi ekki viljað framlengja gildandi lóðarleigusamning. Samningurinn rennur út í apríl og því ekkert annað í stöðunni en að fjarlægja stöðina.
 

„Okkur þykir leitt að missa þessa staðsetningu og var áhugi hjá okkur að halda starfsemi áfram,“ segir Brynja. „Við vitum ekki hver áform Haga eru á lóðinni en óskað var eftir að við myndum fjarlægja allan búnað, ásamt eldsneytistönkum neðanjarðar. Framkvæmdir voru gerðar í samráði við viðeigandi eftirlitsaðila til að tryggja að öll skilyrði séu rétt uppfyllt í ferlinu. Lóðin verður malbikuð um leið og veðurskilyrði leyfa.“

Orkan hefur rekið stöðvar á Akureyri frá árinu 1975 þegar fyrsta stöðin opnaði á Mýrarvegi. Í dag eru Orkustöðvarnar í bænum þrjár, á Furuvöllum, Hörgárbraut og Mýrarvegi. Brynja segir að nýlega hafi verið sett upp hraðhleðslustöð á Hörgárbraut. „Þar bjóðum við upp á 400kW hleðslu með sjö CCS tengjum og einu CHAdeMO og 8 stæðum til að hlaða. Við erum því enn mjög virk á Akureyri og erum stöðugt að skoða leiðir til að styrkja okkur á Norðurlandi og landsbyggðinni allri,“ bætir hún við að lokum.