Fara í efni
Fréttir

Beinafundurinn ekki í skrám Fornleifastofnunar

Kristján Óskarsson, bóndi í Grænuhlíð, heldur á einni af höfuðkúpunum sem fundust við Saurbæ 1976. Myndina tók sonur hans, Óskar Hlíðberg Kristjánsson.

Akureyri.net hefur undanfarna daga staldrað nokkuð oft við hól nokkurn norðan Sólgarðs í Eyjafjarðarsveit, við heimreiðina að Saurbæ í gamla Saurbæjarhreppi. Hrafnskinnarhóll er nafnið sem þessi hóll hefur í örnefnasjá Landmælinga Íslands. Þar fundust bein 1976 þegar unnið var við að ýta upp efni fyrir lagningu nýrrar heimreiðar að Saurbæ. Hóllinn varð á dögunum að heimkynnum listaverks, járnkýrinnar Eddu. En beinagrindurnar eru þarna einhvers staðar.

Nú er komin fram mynd af einni höfuðkúpunni. Óskar Hlíðberg Kristjánsson í Grænuhlíð í Saurbæjarhreppi átti til mynd af föður sínum, Kristjáni Óskarssyni, haldandi á einni höfuðkúpunni sem fundust 1976. Myndinni fylgdi að Óskar minnist þess að grafirnar hafi legið í norður-suður, sem rímar þó ekki við frásögn ýtumannsins Örnólfs Eiríkssonar, en hann sagði beinagrindurnar hafa legið í austur-vestur og vakið athygli þeirra sem þarna komu að málum að höfuðin sneru í austur.

Beinafundurinn ekki rannsakaður

Akureyri.net leitaði liðsinnis Fornleifastofnunar varðandi upplýsingar um beinafundinn, ef einhverjar væru til. Adolf Friðriksson, forstjóri stofnunarinnar, upplýsti að hann hafi ekki fundið neinar upplýsingar um þennan beinafund í skrám stofnunarinnar sem bendi til þess að beinin hafi ekki skilað sér á Þjóðminjasafnið. Það rímar við frásögn Örnólfs ýtumanns sem sagðist telja að beinin hafi verið geymd í strigapokum í einhvern tíma í Saurbæjarkirkju, en að lokum grafin aftur þar sem þau fundust. 

Það gæti svo aftur vakið forvitni fornleifafræðinga í dag sem gætu farið á stúfana, sótt um rannsóknarleyfi og reynt að finna þau á ný. Vinnumaðurinn Páll Rúnar Pálsson gæti þá líklega hjálpað við að finna þau því hann sagði frá því að hann myndi vel hvar beinagrindurnar komu upp og hann gæti gengið beint að þeim stað. 

Ef til þess kæmi að fornleifafræðingar myndu rannsaka staðinn og finna beinin segir Adolf að þá væri hægt að greina þau, skoða heilsufar og mögulega áverka, jafnvel gera kolefnisaldursgreiningu. Hann segir þó að C14 greining á mannabeinum gefi því miður ekki mjög nákvæma niðurstöðu, en gætu að minnsta kosti gefið vísbendingu um frá hvaða tímabili þau eru. Athugun gæti svo leitt í ljós nánari upplýsingar um umbúnað, til að mynda ef grafirnar finnast, afstöðu á milli þeirra, hvort þar sé grjót eða ekki grjót og svo framvegis.

Fornleifar í Saurbæjarhreppi skráðar 1988

Adolf segir að þarna hafi ekki verið gerð rannsókn svo hann viti til. Á vegum Fornleifastofnunar voru skráðar fornleifar í gamla Saurbæjarhreppi árið 1988 og talað við Sigtrygg Sveinbjarnarson og Sveinbjörn Daníelsson þann 12. júní það ár. Þar hafi stofnunin fengið upplýsingar frá Sveinbirni um mannabeinafundinn, en Adolf segist ekki hafa fundið neinar aðrar upplýsingar um beinafundinn nema frásögn Sveinbjarnar. Skömmu áður, þegar unnið var að endurútgáfu doktorsritgerðar Kristjáns Eldjárns, hafi allar upplýsingar varðandi beina- og gripafundi sem gætu bent til kumla verið fínkembdar, en Saurbæjarfundurinn hafi ekki verið þar á meðal. 

Margs konar vísbendingar

Við rannsókn á beinum og stöðum þar sem þau finnast eru alltaf nokkur vafaatriði, en ýmislegt sem hægt er að styðjast við sem vísbendingar. Adolf nefndi nokkra fróðlega punkta í svari sínu við fyrirspurn Akureyri.net. 

  • Þegar mannabein finnast utan kirkjugarðs kemur einkum þrennt til greina: aflagður kristinn grafreitur, heiðið kuml eða mögulega aftökustaður.
  • Það getur verið snúið að greina á milli þessara þriggja möguleika við skoðun á mannabeinum og staðsetningu þeirra.
    • Stærðin skiptir máli, sem og skipulag greftrunarstaðarins. Ef til dæmis finnast fimm til tíu einstaklingar sem liggja þétt saman, nokkurn veginn með höfuðin í vestur, er líklegt að um grafreit úr kaþólsku sé að ræða.
    • Ef það eru færri, einn til fjórir einstaklinegar, og lengra á milli grafa, fimm sentímetrar eða meira, er líklega að það sé kuml úr heiðni. 
  • Umgjörðin getur gefið vísbendingar.
    • Hvort tveggja í kristnum og heiðnum sið voru teknar grafir.
    • Kristnar grafir eru gjarnan dýpri, með eða án kistu, en heiðnar grafir um 50 sm djúpar með einhverri haugnefnu ofan á, úr mold og grjóti. 
    • Í kristnum grafreitum finnast stundum leifar af kistum, til að mynda sem lífræn, bein strik ef gröfin er gömul.
    • Á kumlateigum finnst hins vegar oft talsvert af samantíndu grjóti, en mismunandi eftir landshlutum. Í Eyjafirðinum hefur langoftast fundist grjót í kumlum.
  • Staðsetningin getur sagt okkur sögu.
    • Kristnir grafreitir eru langoftast á bæjarhlaðinu, samanber til dæmis kirkjugarðinn í Saurbæ. Adolf segir að á síðustu árum hafi verið skoðað hvort einhver regla væri á staðsetningu kumla og það hafi skilað merkilegri niðurstöðu. Fólk var ekki grafið hér og þar heldur virðast fornmenn hafa haft mjög skýrar hugmyndir um hvað væri viðeigandi greftrunarstaðir. Áður var talið að kuml væru gjarnan á háum stöðum, þar sem sæi yfir, en svo er ekki, að sögn Adolfs. Þau geta legið hærra, lægra eða í sömu hæð og til dæmis bærinn sem kumlið er frá. Þau finnast gjarnan um 300 metrum frá bæ, en geta verið frá 100 til 700 metrum frá bænum.
    • Ef kuml eru mjög nærri bæ eru þau gjarnan í hvarfi, bakvið hól, bakka eða barð. Kumlin hjá Kroppi og Syðra-Krossanesi eru til dæmis nærri bænunum, en neðst í brekku og í hvarfi frá bæ.


Kuml finnast gjarnan við alfaraleiðir, til dæmis þar sem þjóðleiðir og heimreiðar mætast. Þessi heimreið er reyndar frá 1976 og framkvæmdir vegna hennar urðu einmitt til þess að beinin fundust í hólnum, en áður var heimreiðin að Saurbæ nokkru sunnar. Gæti þó allt eins hafa verið þarna á 13. öld. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

  • Fornar leiðir skipta máli.
    • Flest kuml sem fundist hafa eru við fornar leiðir, til dæmis þar sem þjóðleið liggur yfir landamerki bæjarins, við vöð á ám eða þar sem gamlar þjóðleiðir og heimreiðar mætast. Kuml, sem í íslensku máli þýðir einnig merki, mætti þannig mögulega túlka sem sams konar vegvísi og bæjarskiltin í dag. Þetta getur meðal annars skýrt hvers vegna kuml hafa margoft, reyndar sérstaklega í Eyjafirði, fundist við vegagerð - sbr. til dæmis Moldhauga, Kropp og Bringu. 
  • Gripir í grafreitum
    • Í flestum kumlum finnast gripir, bein hesta eða jafnvel hunda. Algengast er að finna brýni eða eitthvað úr járni, brot úr gripum. Ef kumlin eru á áberandi stað eða þar sem uppblástur hefur átt sér stað segir Adolf að gjarnan sé búið að róta í þeim og hirða gripi þótt beinin liggi eftir.