Fara í efni
Fréttir

„Beina flugið“ þurfti að lenda í Keflavík

Þota á leið frá Edinborg sem átti að lenda á Akureyri í kvöld varð frá að hverfa vegna hvassviðris og lenti á Keflavíkurflugvelli. Mjög sterk vestanátt hefur verið á Akureyri í dag og til að mynda fór Icelandair aðeins tvær ferðir en ekki var flogið síðdegis. 

Í Boeing Max 737-8 vélinni frá Edinborg voru um 200 farþegar á heimleið eftir þriggja daga dvöl í skosku höfuðborginni. Eitt aðflug var reynt að Akureyrarflugvelli en fljótlega tilkynnt að haldið yrði til Keflavíkur. „Rosaleg ókyrrð“ sagði einn farþeganna, öðrum fannst flugið ekki verulega slæmt en vélin hefði reyndar „hoppað hressilega“ á köflum og sá sagði suma farþega hafa verið dálítið smeyka.

Nokkur töf var á að farangur bærist inn í komusalinn í Keflavík en rútur með farþegunum lögðu af stað norður í land um klukkan 23.00.

Farþegar frá Edinborg bíða eftir farangrinum á Keflavíkurflugvelli í kvöld.