Fara í efni
Fréttir

Baráttudagur kvenna: Konur á átakasvæðum

Fayrouz Nouh, Hildur Eir Bolladóttir og Brynja Huld Óskarsdóttir. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna, 8. mars. Í tilefni dagsins var haldinn hádegisfundur í anddyri Borga við Norðurslóð, þar sem rætt var um konur á átakasvæðum. Það voru Zontaklúbbarnir tveir á Akureyri og Soroptimistaklúbbur Akureyrar sem stóðu fyrir fundinum. Vel var mætt og þurfti að tína til aukastóla, svo að allir gætu fengið sér sæti. 

Tvenn erindi voru flutt á fundinum, annars vegar frá Brynju Huld Óskarsdóttur, öryggis- og varnarmálafræðingi og hins vegar frá Fayrouz Nouh, sem er doktorsnemi í HA, en kom upphaflega til landsins fyrir átta árum síðan sem flóttamaður frá Sýrlandi. Hér má lesa viðtal Snæfríðar Ingadóttur við Fayrouz á Akureyri.net, fyrir áhugasöm. 

Fayrouz Nouh stendur í pontu og segir frá. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Erindi Fayrouz á fundinum var um líf hennar sem kona á átakasvæði, sem lendir í því að þurfa að flýja heimalandið með fjölskyldu sína. Meðal annars talaði hún um hversu erfið ákvörðun það var, að yfirgefa landið. Hún sá til dæmis ekki foreldra sína í 10 ár. Erindið var tilfinningaþrungið og Fayrouz opnaði sig varðandi erfiðleikana sem fylgja því að vera í þessari stöðu. Hildur Eir Bolladóttir, sóknarprestur á Akureyri, var fundarstjóri, en hún benti á það hversu mikið hugrekki þarf til þess að stíga fram og segja frá lífsreynslu sem þessari. 

Á málþingi sem þessu fáum við að hlýða á fólk sem raunverulega veit eitthvað um viðfangsefnið, hefur til þess bæra lífsreynslu, innsýn og menntun

„Það sem er mér einna efst í huga er hvað svona málþing eru nauðsynleg í dag á tímum yfirborðskenndra samfélagsmiðla og hraðskreiðrar fjölmiðlunar,“ segir Hildur Eir. „Á málþingi sem þessu fáum við að hlýða á fólk sem raunverulega veit eitthvað um viðfangsefnið, hefur til þess bæra lífsreynslu, innsýn og menntun og gestirnir þurfa að staldra við og hlusta. Hvert sem málefnið er, að ég tali nú ekki um mannréttindamál þá er ekki boðlegt að umræða byggð á formálanum „mér finnst“ ráði för.“

Þegar erindum var lokið á fundinum, gafst tækifæri til þess að spyrja þær Brynju og Fayrouz spurninga og nýttu gestir fundarins sér það vel, þar sem ýmsar umræður fæddust. Brynja Huld átti góðan punkt þegar hún sagði að það væri ekki óalgengt að konur í okkar stöðu, sem njóta mannréttinda og eiga blátt vegabréf sem veitir okkur frelsi til þess að fara ferða okkar, fengjum samviskubit yfir eigin forréttindastöðu. Þvert á móti ættum við að vera þakklátar og líta á það sem tækifæri til þess að láta í okkur heyra. Við ættum að nýta stöðu okkar til þess að hjálpa öðrum og nota málfrelsið til þess að taka afstöðu gegn óréttlæti.