Fara í efni
Fréttir

Baldvin lang fyrstur í 1500 m en fer ekki á ÓL

Baldvin Þór Magnússon úr UFA kemur langfyrstur í mark í 1500 m hlaupi á Meistaramóti Íslands á Akureyri í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Baldvin Þór Magnússon úr Ungmennafélagi Akureyrar varð Íslandsmeistari í 1500 metra hlaupi í dag. Hann sigraði með yfirburðum, hljóp á 3 mín. 50, 87 sekúndum sem er þó langt frá hans besta tíma og útséð er um að Baldvin nái lágmarki fyrir Ólympíuleikana í París í sumar.

Meistaramót Íslands, hið 98. í röðinni, fer fram á Þórsvellinum um helgina. Keppni hófst í gær og lýkur á morgun. Veður var afleitt í gær, rok, rigning og kuldi, en vaktaskipti urðu hjá veðurguðunum í nótt því í dag er sól og blíða á Akureyri.

Besti tími Baldvins og Íslandsmet í 1500 m hlaupi er 3:40,36. Metið setti hann á móti í Bandaríkjunum á síðasta ári. Ekki var raunhæft að búast við því að hann hlypi jafn hratt í dag því samkeppni var engin. Baldvin tók forystu strax á fyrstu metrunum og hljóp einn síns liðs á að giska 1450 metra.

UPPFÆRT – Tími Baldvins Þórs í dag er meistaramótsmet. Hann stórbætti það meira að segja; gamla metið setti ÍR-ingurinn Hlynur Andrésson á síðasta ári þegar hann varð Íslandsmeistari á 3:53,28 mín.

Úrslit eru birt jafnóðum á heimasíðu Frjálsíþróttasambandsins og þar má sjá fjölda mynda frá keppni gærdagsins.

Smellið hér til að sjá úrslit og myndir

Tímaseðill mótsins er hér