Fara í efni
Fréttir

Bakaríin meira og minna með ferskvöru

Tvö bakarí á Akureyri selja innflutta kleinuhringi en annars er áhersla bakaríanna í bænum á ferskvöru. Undanfarið hefur verið nokkur umræða um forbakaðar vörur í bakaríum landsins en samkvæmt tölum frá Hagstofunni hefur innflutningur á bakkelsi aukist mikið.

Í grein í Morgunblaðinu á dögunum sögðu aðilar innan greinarinnar róðurinn þungan, þar sem samkeppnin við matvöruverslanir, veitingageirann og hótel sé mikil. Akureyri.net lék forvitni á að vita hvernig staðan væri á Akureyri en fjögur bakarí eru í bænum; Kristjánsbakarí (Brauðgerð Kr. Jónssonar), Axelsbakari, Bakaríið við Brúna og Brauðgerðarhús Akureyrar. Aðeins eitt af þessum bakaríum, Brauðgerðhús Akureyrar, hefur aldrei nýtt sér forbakaðar vörur, en mottóið þar er að ef ekki er hægt að baka það á staðnum þá bakar bakaríið eitthvað annað.

Gott verð og gæði á innfluttum kleinuhringjum

Hin þrjú bakaríin hafa nýtt sér innfluttar vörur en þó segist Axelsbakarí ekki nýta sér slíkt í dag. Bæði Kristjánsbakarí og Bakaríið við Brúna bjóða upp á innflutta ameríska kleinuhringi en að öðru leyti er allt bakað á staðnum. „Verð og gæðin á þessum kleinuhringjum er bara þannig að við getum ekkert keppt við það,“ segir Vilhjálmur Þorláksson, framkvæmdastjóri Kristjánsbakarís. Sjálfur er hann frumkvöðull í bakstri á amerískum kleinuhringjum á Íslandi en þegar hann stofnaði Gæðabakstur árið 1993 þá sérhæfði fyrirtækið sig í slíkum bakstri. Þegar heildsölurnar fóru svo í kringum 1997-98 að flytja inn forbakaða kleinuhringi snéri Gæðabakstur sér að öðru. „Gæðin voru svo fín á þessum innfluttu kleinuhringjum og verðið svo gott að það var ekkert hægt að keppa við það,“ segir Vilhjálmur og heldur áfram; „Ég hef heimsótt verksmiðju erlendis þar sem 24 þúsund kleinuhringir eru framleiddir á klukkustund. Hver hringur er orðinn gegnfrosinn korteri eftir að hann er búinn til, svo ferskleikinn er alveg að halda sér hingað til landsins.“

Bakkelsi er flutt inn í mun meira mæli en áður og selt í verslunum, bensínstöðvum og á veitingastöðum. Þá eru einhver íslensk bakarí sem selja innflutt krossant, kleinuhringi og vínarbrauð.

Nauðsynlegt að passa upp á baksturshefðina

„Við vorum með okkar eigin kleinuhringi í sölu sem féllu hreinlega ekki í kramið hjá viðskiptavinum, þessir innfluttu voru einfaldlega betri. Að öðru leyti er allt nýtt og ferskt hjá okkur og gert frá grunni, hvort sem það er brauðmeti, sósur eða salöt og sú stefna er ekkert að fara að breytast,“ segir Katrín Andrésdóttir, framkvæmdastjóri Bakarísins við Brúna.

„Mér finnst mikilvægt að við pössum upp á baksturshefðina og handverkið, að við kunnum að búa til vörurnar sjálf því bakaríum landsins hefur farið fækkandi og eru í raun mjög fá,“ segir Margrét Baldvinsdóttir, einn af eigendum Axelsbakarís. Þar á bæ er allt bakað frá grunni en bakaríið hefur þó prófað að vera með tilbúnar beyglur, en er ekki lengur með þær í sölu. Margrét viðurkennir að vissulega geti það verið freistandi að kaupa frosið bakkelsi ef eingöngu sé verið að horfa í tímasparnað og krónur og aura, enda séu heildsölurnar duglegar við að bjóða bakaríunum alls konar tilboð á frosnu bakkelsi. Axels bakarí hefur vissulega kynnt sér framboðið en hefur kosið að búa til sínar eigin vörur og halda í sérstöðu sína, en bakaríið hefur t.d. verið hnetufrítt í ein 20 ár. „Við viljum halda í hefðirnar og mér finnst fólk vera ánægt að geta keypt vörur sem eitthvað er lagt í og er þakklátt fyrir þetta heimatilbúna,“ segir Margrét.

Merkja vöruna upprunalandinu

Aðspurð að því hvort ekki sé nauðsynlegt að innflutt bakkelsi sé betur merkt, hvort sem er í bakaríum eða í verslunum, segir Vilhjálmur hjá Brauðgerð Kr. Jónssonar að honum fyndist sú hugmynd vel koma til greina. „Þegar eitthvað er auglýst nýbakað t.d. í verslunum þá tengir fólk ekki endilega við það að bakkelsið var kannski forbakað fyrir mörgum mánuðum í öðru landi. Mér finnst góð hugmynd að hafa þessar vörur merktar landinu sem þær koma frá,“ segir Katrín hjá Bakarínu við Brúna. Henni finnst mikilvægast í þessari umræðu að neytendur hafi val og séu upplýstir um hvað þeir séu að kaupa.

Eru þetta innlendir eða erlendir kleinuhringir? Það er ekki alltaf auðvelt fyrir neytendur að átta sig á því hvort nýbakað bakkelsi hafi mögulega verið forbakað í öðru landi fyrir mörgum mánuðum. Ljósmynd: Unsplash/Rod Long