Fara í efni
Fréttir

Bærinn smám saman skrýddur jólabúningi

Jólastjarnan í Kaupvangsstræti er ómissandi þáttur á aðdraganda jóla og lýsir upp tilveruna í skammdeginu. Ljósmynd: Skapti

Akureyrarbær skrýðist jólabúningnum hægt og bítandi. Stjarnan í Kaupvangsstræti er ómissandi að margra mati, í aðdraganda hátíðar ljóss og friðar og hún er nú komin á sinn stað enn eitt árið. Ljósaseríu hefur einnig verið komið fyrir á handriðinu meðfram kirkjutröppunum og kveikt hefur verið á jólatrénu norðan við afmælisbarn vikunnar, Akureyrarkirkju.

Í göngugötunni hefur gamall kunningi líka verið hengdur upp, stjarnan sem gjarnan var kennd við Amaro, og alls kyns ljósaskreytingar aðrar lýsa nú upp Hafnarstrætið.

Víðar í bænum er búið að skreyta, bæði meðfram fjölförnum götum og við íbúðarhús. Einn og einn hefur skreytt tré heima á lóð og skraut sést einnig í gluggum.

Eitt virðist ljóst: Akureyringar hlakka nú þegar til jólanna.