Fara í efni
Fréttir

Bærinn bjóði eldri borgurum vinnu

Bærinn bjóði eldri borgurum vinnu

Flokkur fólksins mun leggja það til við bæjarstjórn Akureyrar að skoðað verði hvort Akureyrarbær geti boðið eldri borgurum tímabundnar ráðningar, hlutastarf eða verktakavinnu við ákveðin verk. Þetta kemur fram í grein eftir Málfríði Þórðardóttur, varabæjarfulltrúa flokksins, sem birtist á Akureyri.net í dag.

Málfríður bendir á að sveitarfélögum er ekki skylt að fylgja almannatryggingalögum þegar kemur að skerðingum og geti því bætt kjör eldra fólks sem kýs að starfa lengur en til sjötugs.

Heilbrigðisráðherra viðraði á dögunum hugmynd þess efnis að hámarksaldur opinberra heilbrigðisstarfsmanna yrði hækkaður í 75 ár. „Við fyrstu sýn þótti mér þessi tillaga Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra alveg galin þar sem flestir heilbrigðisstarfsmenn eru útkeyrðir löngu áður en til starfsloka kemur,“ segir Málfríður í greininni, en þegar hún hafi velt hugmyndinni betur fyrir sér „þá sá ég að í henni gætu falist tækifæri og hún gæti orðið til góðs og orðið fyrsta skrefið í átt að sveigjanlegri starfslokum fyrir eldra fólk,“ segir Málfríður.

Skref í átt að réttlæti

Málfríður skrifar: „Lengi hefur það gilt að opinberir starfsmenn láti af störfum í síðasta lagi um sjötugt sama á hvaða sviði þeir starfa og hvort mannekla er fyrir hendi eða ekki. Ætla má að álíka mönnunnar vandamál muni koma upp í náinni framtíð á fleiri sviðum en í heilbrigðiskerfinu þar sem sífellt færri og færri börn fæðast og fleiri enda á örorku með þeim afleiðingum að færri eru á vinnumarkaði. Við þessum staðreyndum þarf að bregðast. Við í Flokki fólksins fögnum öllum framfara skrefum í átt að réttlæti og styðjum þá hugmynd að eldra fólk fái tækifæri til að ákveða hvenær það fer af vinnumarkaði og geti starfað áfram án skerðinga.“

Smellið hér til að lesa grein Málfríðar.