Fara í efni
Fréttir

Bæjarráð: Ekki einhugur um áfengissöluna

Áfengissala hófst á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli um síðustu helgi eins og komið hefur fram. Meirihluti bæjarráðs Akureyrar samþykkti í morgun að veita jákvæða umsögn vegna umsóknar um vínveitingaleyfið, eftir að erindi barst þar að lútandi frá embætti sýslumanns; með þeim skilyrðum að það sé bundið samningi við núverandi rekstraraðila, félagið AnnAssist ehf, sem gildir út aprílmánuð og að afgreiðslutími virka daga frá klukkan 16.00 til 19.00. 

Þegar samið var um veitingasölu á skíðasvæðinu lýsti viðsemjandi bæjarins áhuga á að selja áfengi og gerði stjórn Hlíðarfjalls ekki athugasemdir við það.

Fjórir samþykktu í morgun að veita jákvæða umsögn, fulltrúi Samfylkingarinnar sat hjá og áheyrnarfulltrúi VG er mjög á móti.

Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri, sat hjá og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Ég tel nauðsynlegt að fá umsögn forvarnafulltrúa Akureyrarbæjar um sölu áfengis í Hlíðarfjalli sem og mögulega umgjörð slíkrar sölu áður en ákvörðun sem þessi er tekin.“

Bókun Sóleyjar Bjarkar Stefánsdóttur, bæjarfulltrúa VG og áheyrnarfulltrúa í bæjarráði er svohljóðandi:

„Ég tel sölu áfengis í Hlíðarfjalli ganga harðlega gegn forvarnastefnu Akureyrarbæjar og á engan hátt viðeigandi á þessu svæði þar sem ungt fólk, börn og fjölskyldur hafa hingað til notið útivistar og samveru sem er að mínu mati mikilvægur þáttur í þjónustu við íbúa bæjarins. Þessi ákvörðun samræmist á engan hátt því ákvæði í samstarfssáttmála bæjarstjórnar um að setja hagsmuni barna og ungmenna í forgang. Vert er að benda á að mikil hætta getur skapast í brekkunum hafi skíðafólk ekki fulla stjórn á hreyfingum sínum. Sé það vilji meirihluta bæjarráðs að leyfa sölu áfengis í Hlíðarfjalli ætti í það minnsta að setja þröngar skorður og aðeins leyfa vínveitingar í veitingasölu og ekki megi afgreiða áfengi í öðum umbúðum en opnum glösum.“