Fara í efni
Fréttir

Bæjarfulltrúar ekki undrandi en vonsviknir

Lögmannshlíð, annað tveggja heimila á Akureyri sem Heilsuvernd hefur rekið síðan 1. maí.
Lögmannshlíð, annað tveggja heimila á Akureyri sem Heilsuvernd hefur rekið síðan 1. maí.

Alls var 13 starfsmönnum Öldrunarheimila Akureyrar sagt upp, eða gerður við þá starfslokasamningur, á föstudaginn, að því er segir í tilkynningu frá Heilsvernd, fyrirtækinu sem tók við rekstri heimilanna 1. maí skv. samningi við Sjúkratryggingar ríkisins. Vísir sagði frá því á föstudagskvöldið, og Akureyri.net vitnaði í þá frétt, að um 25 hefði verið sagt upp „síðustu daga“. Af tilkynningu fyrirtækisins má ráða að ekki hafi fleiri en 13 verið sagt upp í heildina.

Þeim bæjarfulltrúum á Akureyri sem hafa svarað fyrirspurn Akureyri.net þykir miður að gripið hafi verið til uppsagna en sú ákvörðun kemur þeim ekki á óvart.

Hagræðing - sjálfbærni - samþætting - stefnumörkun

Tilkynningin frá Heilsuvernd í gær var svohljóðandi:

„Í gær, föstudaginn 18. júní voru kynntar breytingar á skipulagi rekstrar og skipuriti Heilsuverndar Hjúkrunarheimila, sem er óhagnaðardrifið einkahlutafélag.

Tilgangur breytinganna er hagræðing og sjálfbærni rekstrarins, samþætting og stefnumörkun til framtíðar með nýsköpun að leiðarljósi. Því miður varð ekki hjá því komist að fækka í starfsmannahópnum við þessar aðstæður og náði sú fækkun til flestra starfa í starfseminni, bæði til stjórnenda og almennra starfsmanna.

Uppsagnir og samkomulag um starfslok var gert við samtals 13 starfsmenn.

Meðalaldur starfsmanna sem sagt var upp er 54 ár og aldursbilið er 24-65 ára. Þeim er óskað velfarnaðar og færðar þakkir fyrir sín störf fyrir heimilin.

Nú sem áður leggja starfsmenn sig fram um að veita góða þjónustu með velferð íbúanna að leiðarljósi. Áfram stöndum við vörð um Heilsuvernd Hjúkrunarheimili sem gott heimili og góðan vinnustað sem ætlar að halda áfram að vera í fararbroddi öldrunarþjónustu á Íslandi.“

Þarf meira fjármagn í reksturinn

Akureyri.net sendi oddvitum allra flokka í bæjarstjórn spurningar í kjölfar frétta af uppsögnum. Þrír hafa þegar svarað, Halla Björk Reynisdóttir, oddviti L-listans og forseti bæjarstjórnar, Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi VG og Hlynur Jóhannsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins.

Kemur það þér á óvart að fólki með langa starfsreynslu skuli sagt upp, væntanlega til þess að ráða starfsfólk á lægri launum?

Halla Björk: „Í ljósi þess að ríkið virðist ekki ætla sér að greiða meira með rekstrinum þrátt fyrir að nýleg skýrsla sýni að hjúkrunarheimili hafa verið svelt lengi, þá kemur það kannski ekki svo mjög á óvart. Akureyrarbær hefur um langt árabil greitt með rekstrinum og viðbúið að einkaaðilar séu ekki tilbúnir til þess og grípi þá til þess að fækka starfsfólki. Það er alltaf mjög sorglegt þegar traustu og góðu starfsfólki er sagt upp störfum.“

Sóley Björk: „Það er alltaf mjög leitt þegar starfsfólki er sagt upp störfum en það var ljóst að þar sem launakostnaður var yfir 100% af rekstrarkostnaði Öldrunarheimilanna þá þyrfti að grípa til uppsagna ef ríkið greiðir ekki meira með rekstrinum. Þetta var einmitt ástæðan fyrir því að við tókum þá ákvörðun að segja upp samningum því það var ekki forsvaranlegt að nota útsvar íbúa Akureyrar til að greiða niður þjónustu sem ríkinu ber skylda til að veita.“

Hlynur: „Í raun og veru kemur þetta ekki á óvart því það var ljóst að reksturinn gekk ekki upp miðað við þær forsendur sem lágu fyrir og því augljóst að einhverju þyrfti að breyta ef þetta ætti að ganga upp.“

Óttaðist þú, eða grunaði þig, að þetta myndi gerast þegar samið var við einkafyrirtæki um rekstur heimilanna?

Halla Björk: „Jú þetta var eitt af því sem var rætt og þá óháð því hver tæki við rekstrinum. Það var ljóst eins og ég sagði áður að nægt fjármagn hefur ekki fylgt rekstrinum um árabil og engin teikn á lofti um að ríkið hafi hugsað sér að breyta því. Ríkið verður auðvitað að horfast í augu við vandann og fjármagna þennan málaflokk miklu betur.“

Sóley Björk: „Það var von mín að þegar ríkisvaldinu tækist ekki lengur að koma hluta kostnaðarins við reksturinn á útsvarsgreiðendur á Akureyri þá myndi það setja aukið fjármagn til rekstursins. Það virðist því miður ekki vera raunin, enn sem komið er að minnsta kosti.“

Hlynur: „Því miður þá óttaðist maður að þetta myndi gerast þegar farið yrði ofan í reksturinn því það var ljóst að við óbreyttar forsendur myndi þetta ekki ganga upp.“

Finnst þér það skipta máli hvort einkafyrirtæki, sveitarfélag eða ríkið sjái um rekstur öldrunarheimila? Telurðu að þjónustan sé sambærileg - jafn góð - hvort sem einkafyrirtæki, sveitarfélag eða ríkið reki öldrunarheimili?

Halla Björk: „Í ljósi þess að fjármagnið hefur ekki fylgt rekstrinum þá vonaðist maður til þess að ríkið sem ber ábyrgð á þjónustunni samkvæmt lögum tæki við rekstrinum í gegnum stofnun eins og Heilbrigðisstofnun Norðurlands og lengi vel stóð það til. Akureyrarbæ var ekki lengur stætt á því að halda áfram greiða hundruði milljóna árlega með rekstrinum og verja þannig fjármunum sem ættu að fara í lögbundin verkefni bæjarins í verkefni sem ríkinu ber að annast. Hvað varðar þjónustuna, þá tel ég að gæði hennar fylgi starfsfólkinu og ætti ekki að þurfa að vera munur þar á, að því gefnu að málaflokkurinn sé fjármagnaður.“

Sóley Björk: „Ég hafði vonað að HSN tæki yfir reksturinn eins og til stóð upphaflega svo það voru vonbrigði og ég hefði þá frekar viljað sjá að sjálfseignarstofnun tæki við rekstrinum. Ég tel að allri heilbrigðisþjónustu sé betur komið á höndum hins opinbera en einkaaðila en vona að ríkisvaldinu beri gæfa til að hafa gott eftirlit með þessari mikilvægu og viðkvæmu þjónustu.“

Hlynur: „Í raun og veru á það ekki að skipta máli ef fjármagn er tryggt til rekstursins. Þegar upp er staðið þá snýst þetta alltaf að lokum um hversu gott starfsfólk vinnur á staðnum.“

Eftir á að hyggja, telur þú útilokað að SÍ og Akureyrarbær hefðu getað samið á viðunandi hátt fyrir báða aðila?

Halla Björk: „Já tel að það hafi verið fullreynt og lítill sem enginn vilji hjá ríki til þess að koma til móts við kröfur bæjarins.“

Sóley Björk: „Já, það tel ég að hafi verið fullreynt.“

Hlynur: „Það var búið að margreyna að komast að samkomulagi við ríkið um reksturinn en gékk ekkert og því var þetta eina leiðin því ekki gátum við notað útsvarstekjur til að greiða þetta niður.“