Fara í efni
Fréttir

Bæjarbúar eiga rétt á fullnægjandi skýringum

Sigurður J. Sigurðsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og forseti bæjarstjórnar, segir að ýmislegt þurfi að útskýra betur varðandi málefni hjúkrunarheimilanna á Akureyri, Hlíðar og Lögmannshlíðar. Þetta kemur fram í aðsendri grein Sigurðar sem birtist á Akureyri.net í morgun. Akureyrabær sagði sem kunnugt er upp rekstrarsamningi við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um hjúkrunarheimilin.

„SÍ bera ábyrgð á fjármögnun rekstrar að mestu leyti og verður að telja undarlegt að allan þennan tíma hafi ekki tekist að ná sátt um þennan rekstur, þjónustustig og eðlileg samskipti bæjarins og SÍ, sem leitt hefur til þess að Akureyrarbær hefur tekið á sig þau útgjöld sem SÍ hafa ekki talið sér skylt að greiða. Svo virðist sem orkunni sé eytt í hnútukast milli aðila og málefnum aldraðra kastað á milli líkt og fjöreggi í stað þess að ganga til lausnamiðaðrar vinnu,“ segir Sigurður.

Sigurður segir það sæta verulegri furðu að semja eigi við „einhverja“ aðila til að sinna þessu viðkvæma verkefni í stað þess að ganga til verka um lausn. „Það hlýtur að vera umhugsunarvert ef SÍ finna aðila sem eru reiðubúnir til að veita þessa þjónustu við aldraða í stað Akureyrarbæjar miðað við óbreytt framlög. Við þekkjum af langri reynslu að sú aðferðafræði að úthýsa þjónustu hefur sín takmörk og leiðir ekki endilega til bættrar þjónustu né lækkunar kostnaðar. Það ætti því að vera jafn auðvelt fyrir SÍ að semja við Akureyrarbæ gagnvart framtíðinni, eins og við aðra aðila.

Þó undirritaður sé talsmaður einkaframtaks þá getur það vart staðist að einkarekstur geti náð hagkvæmari samningum við SÍ, en Akureyrarbær þegar horft er til arðsemi og áhættu af því að yfirtaka slíkan rekstur, nema með því móti að samnýta þjónustu hjá stærri aðila og þá væntanlega á höfuðborgarsvæðinu.“

Sigurður segir ekki sjálfgefið að sveitarfélög annist rekstur hjúkrunarheimila, „en vegna víðtækrar annarrar þjónustu við aldraða mætti álíta að ákveðin samlegðaráhrif slíkrar nærþjónustu væri heppilegt rekstrarform.“ Hann segir Akureyrarbæ, sem hafi sinnt þjónustunni í áratugi, eiga að hafa metnað til að sinna verkefninu áfram. 

Sigurður segir bæjarstjórn verða að skýra það fyrir skattgreiðendum hvers vegna hallarekstur hafi verið látinn viðgangast til fjölda ára og ekki gripið til aðgerða fyrr en nú. Jafnframt verði að skýra af hverju þjónustunni hafi verið sinnt án samnings við SÍ í meir en áratug. Sú leið að rjúka upp á nef sér og kvarta undan skilningsleysi SÍ og takmarkaðs samningsvilja leiði ekki til lausnar.

Hann segir jafnframt óviðunandi að ekki sé hægt með skýrum hætti að sjá hvaða frávik valda því að rekstur hjúkrunarheimilanna á Akureyri, Hlíðar og Lögmannshlíðar, færðust með þunga á sveitarfélagið. „Stjórnvöld geta ekki gengið svo frá borði gagnvart fortíðinni að uppsafnaður hallarekstur sé ekki fullkomlega skýrður og bæjarfélagið verður jafnframt að skýra það fyrir skattgreiðendum hvers vegna það hefur ekki náð tökum á rekstri, ef satt reynist. Fortíðinni má ekki sópa undir teppið, bæjarbúar eiga rétt á því að þessi mynd sé skýrð á fullnægjandi hátt,“ segir Sigurður J. Sigurðsson.

Grein Sigurðar