Fara í efni
Fréttir

Aumt að stuðla að láglaunastefnu

Aumt að stuðla að láglaunastefnu

Björn Snæbjörnsson, formaður verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju kveðst undrast mjög þau orð Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra í viðtali við N4 að nýir starfsmenn Öldrunarheimila Akureyrar fari á aðra kjarasamninga en þeir sem þegar starfa þar. Hún segir í viðtalinu – eins og alkunna er reyndar – að laun hjá sveitarfélögunum séu umtalsvert hærri en hjá öðrum fyrirtækjum í velferðarþjónustu. Talað hefur verið um 10% í því sambandi.

Kostnaðurinn lækkar fljótlega

Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Heilsuvernd hjúkrunarheimili ehf. í Kópavogi um rekstur hjúkrunarheimila á Akureyri. Félagið tekur við um næstu mánaðamót og verður þar með einn stærsti vinnuveitandi í bænum. „Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri segist treysta því að starfsemin og þjónustan verði áfram jafn öflug og hún hefur verið hjá bænum. Hún segir að lög um aðilaskipti tryggi að núverandi starfsmenn haldi sínum kjörum út samningstímabil gildandi kjarasamninga,“ segir á vef N4, og vísað til ítarlegs viðtals við Ásthildi sem sent verður á fimmtudagskvöldið.

„Starfsmannaveltan er mikil og nýtt starfsfólk fer á nýja kjarasamninga þegar það er ráðið til starfa. Kostnaðurinn við reksturinn lækkar því mjög fljótlega, þegar nýtt fólk er ráðið inn á öðrum kjarasamningum,“ segir bæjarstjórinn í viðtalinu.

Því lægri laun, því betra?

„Ég varð verulega hissa þegar ég las viðtal við bæjarstjórann á Akureyri þar sem hún gefur sér að launþegar sem verða ráðnir til hins nýja rekstraraðila hjúkrunarheimilanna á Akureyri verði á mikið lægri launum en þeir eru nú, þar sem þeir fari á nýja samninga,“ skrifar Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, á Facebook síðu sína.

„Það eru meira en 150 félagsmenn Einingu-Iðju að vinna hjá hjúkrunarheimilunum. Eining-Iðja, sem gætir hagsmuna þessa fólks hefur ekki fengið eitt einasta símtal frá nýjum rekstraraðila. Finnst bæjarstjóra allt í lagi að það sé verið að lækka laun fólksins sem sinnir þessum mikilvægu störfum? Er það virkilega metnaður bæjarins að því lægri laun því betra? Hefði ekki verið nær að berjast við Ríkið um meiri peninga til rekstrarins og að halda uppi því launastigi sem hefur verið í gildi?

Það er aumt að bærinn skuli stuðla að því að „láglaunastefnan“ að sunnan verði tekin upp í okkar frábæra bæ.“

Vefur N4