Fara í efni
Fréttir

Aukin áhætta að mati Slökkviliðs Akureyrar

Maron Berg Pétursson, varaslökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akureyrar, Grétar Þór Þorsteinsson, sérfræðingur á sviði brunavarna og slökkviliða hjá HMS, og Gunnar Rúnar Ólafsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akureyrar. Mynd: HMS.

Brunavarnaáætlun Slökkviliðs Akureyrar sem bæjarstjórn Akureyrar samþykkti 20. febrúar er fyrsta stafræna brunavarnaáætlun landsins. Hún er nú aðgengileg á vef Akureyrarbæjar. Fram kemur í áhættumati slökkviliðsins í þessari nýsamþykktu brunavarnaáætlun að áhætta hafi aukist í sveitarfélaginu. Helstu ástæðurnar eru sagðar ný fyrirtæki sem hafa hafið starfsemi á svæðinu, fjölgun ferðamanna og komur skemmtiferðaskipa. Einnig hafi áhætta vegna gróðurelda aukis. 

Sagt er frá samþykkt brunavarnaáætlunarinnar á vef Akureyrarbæjar og vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Í frétt HMS kemur fram að hér sé um að ræða tímamót í stafrænni lausn fyrir starfsemi slökkviliða, en samkvæmt áætluninni hafi áhættan aukist í sveitarfélaginu, meðal annars með tilkomu nýrra fyrirtækja og fjölgunar vferðamanna. HMS stefnir að því að 80% slökkviliða landsins verði með virka brunavarnaáætlun undir lok árs.

Auðveldar slökkviliði að bregðast við í rauntíma

Í frétt HMS segir að stafrænar brunavarnaáætlanir séu unnar á einfaldari hátt en áður og muni veita betri yfirsýn yfir stöðu slökkviliða á landsvísu með samræmdum og samanburðarhæfum upplýsingum. Upplýsingarnar sem nýttar eru í áætlanirnar eru unnar í gegnum Brunagátt, sem er miðlæg gátt er HMS rekur fyrir rauntímaupplýsingar um stöðu slökkviliða og eru gögnin nýtt til forskráningar í áætlanirnar. Upplýsingum er viðhaldið í gáttinni og eru þær uppfærðar í samræmi við breytingar,“ segir í fréttinni. Þar er vitnað í Gunnar Rúnar Ólafsson, slökkviliðsstjóra á Akureyri, sem segir að stafrænar brunavarnaáætlanir auðveldi slökkviliðinu meðal annars að bregðast við breytingum í samfélaginu í rauntíma. Brunavarnaáætlunin sé auðveldari í vinnslu og að aðferðarfræðin á bak við hana sé betri en hjá fyrri brunavarnaáætlunum, sem auðveldi slökkviliðum við að leggja fram áhættumat og reikna út viðbragðstíma.


Skjáskot úr brunavarnaáætlun Slökkviliðs Akureyrar sem sýnir flokkun útkalla slökkviliðsins undanfarna 12 mánuði.

Fram kemur í umfjöllun HMS að starfssæði Slökkviliðs Akureyrar nái yfir 2.861 ferkílómetra og það sé eina starfandi atvinnuslökkviliðið á Norðurlandi, með starfsstöðvar á Akureyri, í Hrísey og Grímsey. Á starfssvæði slökkviliðsins búa ríflega 22 þúsund manns. Útköll slökkviliðsins árið 2023 voru 135 talsins, þar af helmingur vegna elds. Ríflega eitt af hverjum tíu voru í F1 forgangi, sem er hæsti forgangur útkalla. 

Markmið brunavarnaáætlunar er að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað að það ráði við þær áhættur sem eru í sveitarfélaginu. Á hverju starfssvæði slökkviliðs skal liggja fyrir brunavarnaáætlun sem fengið hefur samþykki HMS og viðkomandi sveitarstjórnar. Slökkviliðsstjóri vinnur brunavarnaáætlun sem er öflugt verkfæri til að ná fram yfirsýn yfir starfsemi og ástand slökkviliðs og hversu vel í stakk búið það er að takast við áhættur á sínu svæði,“ segir í frétt HMS.