Fara í efni
Fréttir

Aukið fé í menningu eflir annan borgarkjarna

Framlag ríkisins til atvinnustarfs í listum á Akureyri var 204 milljónir króna á síðasta ári en Akureyrarbær lagði fram 546 milljónir. Framlag ríkisins til eigin stofnana á sömu sviðum á höfuðborgarsvæðinu er fjórir milljarðar, þannig að til „systurverkefna“ á Akureyri leggur það til um 5% af þeirri upphæð.

Unnið er að endurnýjun menningarsamnings Akureyrarbæjar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins og segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, í grein sem birtist á Akureyri.net í dag, að Akureyrarbær leggi til að hlutfallið verði 10%. „Með því yrði sett raunverulegt viðmið um framlög ríkisins til samstarfsins og til grundvallar liggur áætlað áhrifasvæði Akureyrar sem telur um 30.000 - 35.000 manns þegar hluti Austurlands er talinn með. Til að ná þessu marki yrðu framlög ríkisins að hækka um ríflega 180 milljónir króna á ári. Í heildarsamhenginu er það ekki há fjárhæð,“ segir Ásthildur.

Markmið samningsins er m.a. efla hlutverk Akureyrar í lista- og menningarlífi á Íslandi og efla þannig búsetukosti á Norður- og Austurlandi. „Með því að auka framlag til menningar og lista á áhrifasvæði Akureyrar væru stjórnvöld að sýna í verki vilja sinn til að efla annan borgarkjarna á Íslandi sem yrði raunverulegt mótvægi við þéttbýlið á suðvesturhorni landsins,“ segir Ásthildur. „Þannig hefði atvinnufólk í listum fleiri kosti en höfuðborgarsvæðið eitt til búsetu og Norðlendingar ættu kost á menningartilboðum sem jafnast á við það besta sem býðst á höfuðborgarsvæðinu.“

Smellið hér til að lesa grein Ásthildar