Fara í efni
Fréttir

Auglýsingar í sjálfsafgreiðslu – vilja efla íslenska vefmiðla

Þremenningarnir hjá Púls Media. Frá svinstri: Orri Ólafsson, Helgi Pjetur og Andri Már Þórhallsson.

Nú skal vörn snúið í sókn! Hugbúnaðarfyrirtækið Púls Media hefur þróað lausn í því skyni að hjálpa íslenskum fjölmiðlum að ná fyrri styrk: nú er hægt að kaupa auglýsingar í sjálfsafgreiðslu.

Einungis um þriðjungur þess fjár sem íslensk fyrirtæki verja í auglýsingar á netinu skilar sér til innlendra miðla, segir Akureyringurinn Andri Már Þórhallsson, annar eigenda Púls Media. Hann segir milljarða króna af birtingarfé íslenskra fyrirtækja renna til erlendra risa á borð við Facebook og Google árlega.

Púls Media hóf í gær að bjóða upp á þann möguleika að kaupa auglýsingar í sjálfsafgreiðslu á níu íslenskum vefmiðlum – þar á meðal Akureyri.net.

  • Vefmiðlarnir níu eru Vísir.is, Já.is, Mannlíf, Kjarninn, Fótbolti.net, Fasteignir.is, Akureyri.net og fréttaöppin Púlsinn og Lumman.

„Þetta er fyrsti íslenski sjálfsafgreiðslumiðillinn fyrir auglýsingar. Lítil og meðalstór fyrirtæki hafa auglýst í miklum mæli hjá erlendu miðlunum, það er bæði fljótlegt og auðvelt. Þennan möguleika hefur vantað hér á landi,“ segir Andri Már við Akureyri.net. „Við viljum hjálpa innlendu miðlunum að ná fyrri styrk með einföldum og ódýrum hætti.“

Leituðu lausna fyrir eigin miðla

Andri Már og Helgi Pjetur, viðskiptafélagi hans, eiga sjálfir smáforritin Púlsinn og Lummuna. „Þetta byrjaði þannig að við vildum finna lausn til þess að einfalda okkur að að selja auglýsingar á þá miðla. Þegar við fórum af stað og sáum hve gífurlegt auglýsingafé fer úr landi á hverju ár datt okkur í hug þessi lausn; að sameina auglýsingamiðlana í eitt kerfi þar sem fólk gæti þjónustað sig sjálft. Það er að sjálfsögðu miklu ódýrara fyrir fyrirtækin því kerfið okkar sækir gögn á miðlara og birtir á réttum tíma.“

Andri Már segir viðtökur hafa verið mjög góðar. Bæði hafi fjölmiðlar sýnt lausninni mikinn áhuga og þegar séu fyrirtæki farin að nýta sér möguleikann á að kaupa auglýsingar með þessum hætti.

Smellið hér til að fara á vef Púls Media.

Nánar um Púls Media síðar.