Fara í efni
Fréttir

„Auðvelt að tengja við fjölda áfangastaða“

Sigurgeir Hreinsson, einn farþeganna á leið til Keflavíkur í bítið, þiggur pönnuköku frá Raffaele Marino, veitingamanni á Akureyrarflugvelli. Icelandair bauð upp á léttar veitingar í tilefni dagsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Icelandair hóf í morgun flug frá Akureyri til Keflavíkur á nýjan leik. Þar með er komin alþjóðatenging frá Akureyri til Keflavíkurflugvallar, eins og félagið orðar það, sem boðið verður upp á þrjá daga í viku hvora leið.

„Alþjóðatengingin stendur til boða á tímabilinu 15. október til 30. nóvember 2023. Á tímabilinu verður flogið þrisvar sinnum í viku frá Akureyri til Keflavíkur, á mánudögum, fimmtudögum og laugardögum klukkan 5:50 að morgni og þrisvar sinnum í viku frá Keflavík til Akureyrar á miðvikudögum klukkan 21:20 og föstudögum og sunnudögum klukkan 17:15. Með fluginu verður auðvelt að tengja við fjölda áfangastaða Icelandair í Evrópu,“ segir í tilkynningu frá flugfélaginu.

Fyrstu farþegum á flugleiðinni var í morgun boðið upp á léttar kaffiveitingar á Akureyrarflugvelli. Brottför var kl. 5.50 og Raffaele Marino, vert á flugvellinum, var því snemma á fótum til að hella upp á kaffi og baka dýrindis pönnukökur.

Inga Dís Sigurðardóttir var í hópi farþega til Keflavíkur í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Þar sem flugið er alþjóðatenging fer öryggisleit fram á Akureyrarflugvelli og einungis verður hægt að bóka það samhliða millilandaflugi með Icelandair. Vegna styttri afgreiðslutíma í öryggisleit og ferðatíma á flugvöll munu íbúar Akureyrar og nágrennis og ferðamenn þaðan geta lagt af stað á flugvöllinn á svipuðum tíma og íbúar höfuðborgarsvæðisins.“

Ákveðið var að hefja flugið utan háannar þar sem gistirými á Norðurlandi er af skornum skammti yfir sumartímann. Markmið Icelandair til framtíðar er að efla alþjóðatenginguna við Akureyri og byggja hana upp í takt við eftirspurn, segir í tilkynningunni.

Farþegar ganga um borð í vélina á Akureyrarflugvelli í rauðabítið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Áfangastaðir vítt og breytt um Evrópu

„Alþjóðatengingin frá Akureyri hefur strax fengið mjög góðar viðtökur, enda mun hún stytta ferðatíma Norðlendinga til áfangastaða Icelandair í Evrópu umtalsvert,“ segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair. „Með tengingunni viljum við einnig stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið og byggja upp aukna eftirspurn eftir ferðum til Akureyrar, sérstaklega yfir vetrartímann. Það er gaman að segja frá því að þau sem nýttu fyrsta flugið frá Akureyri í morgun eru á leið vítt og breytt um Evrópu, til Berlínar, Brussel, Frankfurt, Tenerife, Dublin, London, Kaupmannahafnar og Helsinki.“

Fyrir flugið í morgun. Frá vinstri: Aldís Tryggvadóttir flugfreyja, Ari Fossdal stöðvarstjóri Icelandair á Akureyrarflugvelli, Georg Hansen flugstjóri og Ástþór Ýmir Alexandersson flugmaður. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson