Fara í efni
Fréttir

Atvinnulausum fækkar á Norðurlandi eystra

Atvinnuleysi á Norðurlandi eystra minnkaði úr 6,0% í maí niður í 4,4%. Skráð atvinnuleysi á landinu öllu var 7,4% í júní og minnkaði talsvert frá maí eða úr 9,1%. Atvinnuleysi minnkaði í öllum landshlutum. Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar.

Skráð atvinnuleysi var 7,4% í júní og minnkaði talsvert frá maí eða úr 9,1%. Alls fækkaði atvinnulausum að meðaltali um 3.062 eða um 18% frá maímánuði. Atvinnuleysi var 10,4% í apríl, 11,0% í mars, 11,4% í febrúar og 11,6% í janúar 2021. Atvinnulausir voru alls 14.316 í lok júní, 7.528 karlar og 6.788 konur og fækkaði atvinnulausum körlum um 1.862 frá maílokum og atvinnulausum konum fækkaði um 1.445. 

Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum eða 13,7% og minnkaði úr 18,7% í maí.  Næst mest var atvinnuleysið 7,9% á höfuðborgarsvæðinu og lækkaði úr 9,4% frá því í maí.

Hlutabótaleiðinni sem í boði var frá mars 2020 lauk í lok maí 2021. Alls fengu rúmlega 6.700 atvinnurekendur um 28 milljarða styrk vegna ríflega 36.500  starfsmanna. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi minnki áfram í júlí m.a. vegna sérstakra atvinnuátaka stjórnvalda og aukinna umsvifa í ferðaþjónustu og verði á bilinu 6,3% til 6,8%.

Alls höfðu 5.818 atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok júní og fækkaði um 612 frá maí. Hins vegar voru þeir 2.700 í júnílok 2020. Gera má ráð fyrir því að fjöldi þeirra sem hafa verið án atvinnu í yfir 12 mánuði muni fara minnkandi næstu mánuði.

Nánar hér