Fara í efni
Fréttir

Hraðhleðslustöð fyrir Tesla við Norðurtorg

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Rafbílaframleiðandinn Tesla hefur tekið í notkun hraðhleðslustöð við verslunarkjarnann Norðurtorg á Akureyri. Þar er hægt að hlaða allt að átta Teslubíla í einu.

„Við vinnum að því kom upp hleðslustöðvum við hringveginn og Akureyri er kjörinn staður, bæði vegna heimamanna, annarra Íslendinga og ferðamanna sem ferðast hringinn í kringum landið,“ segir Even Sandvold Roland, talsmaður Tesla, við Akureyri.net. „Við viljum gera fólki kleift að fara um landið á rafknúnum farartækjum,“ segir hann.

Talsmaður Tesla hefur áður lýst því yfir að hraðvirk­ir og not­enda­væn­ir innviðir séu lyk­il­atriði þegar kem­ur að því að auðvelda fólki að skipta yfir í raf­magns­bíla. 

Hér má sjá á korti hvar Tesla hefur komið upp hraðhleðslustöðvum hérlendis. Staðirnir eru merktir með rauðum lit, auk þess eru nokkrir gráir þar sem til stendur að setja upp stöðvar.

Átta hleðslubásar eru á hraðhleðslustöð Tesla við Norðurtorg. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.