Fara í efni
Fréttir

Ásthildur á Hringborði, Þorsteinn heiðraður

Ásthildur Sturludóttir og Þorsteinn Gunnarsson á ráðstefnunni í Hörpu. Mynd af vef Akureyrarbæjar.

Bæjarstjórinn á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, sækir alþjóðlegu ráðstefnuna Hringborð Norðurslóða – Arctic Circle – í Reykjavík, sem hófst í gær og stendur til sunnudags. Ráðstefnan er stærsti alþjóðlegi umræðuvettvangur um norðurslóðamál í heiminum.

Ásthildur hélt í gærkvöldi stutta tölu á sérstakri móttöku þar sem Þorsteinn Gunnarsson fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri var heiðraður fyrir störf sín á sviði Norðurslóðamála, að því er segir á heimasíðu Akureyrarbæjar. Meðal annarra frummælenda var Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands.

„Í kvöld verður haldin opin málstofa um sjálfbæra þróun og stöðu ungmenna á Norðurslóðum en þar talar Ásthildur um þá þróun sem orðið hefur í búsetu yngra fólks í hinum dreifðari byggðum Íslands og hvernig stafrænar lausnir gætu verið lykillinn að því að búseta allra aldurshópa haldist sem víðast,“ segir á vef bæjarins.

„Á morgun, laugardag, verða síðan haldnar pallborðsumræður um það hvernig sveitarfélög hafa brugðist við þeim vanda sem Covid-19 hefur leitt yfir okkur og hvað megi af þeim viðbrögðum læra. Þessi málstofa er á vegum Samtaka bæjar- og sveitarstjóra á Norðurslóðum, Arctic Mayors' Forum, þar sem Akureyrarbær gegnir formennsku og Ásthildur Sturludóttir stýrir umræðunum.

Arctic Circle er vettvangur alþjóðlegrar samvinnu á sviði Norðurslóðamála, opinn lýðræðislegur vettvangur með þátttöku stjórnvalda, stofnana, fyrirtækja, háskóla, hugsuða, umhverfissamtaka, frumbyggja og annarra sem láta sig framtíð jarðar varða.“