Fara í efni
Fréttir

Fjölsmiðjan getur ekki þegið allt sem býðst

Erlingur Kristjánsson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar á Akureyri. Ljósmynd: Skapti
Erlingur Kristjánsson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar á Akureyri. Ljósmynd: Skapti

Svo mikið hefur borist af húsgögnum í Fjölsmiðjuna að undanförnu að geymslupláss er nánast uppurið. „Plássið er takmarkað og þegar okkar bjóðast stórir hlutir, rúm, sófasett og þessar háttar, þurfum við að velja úr og tökum aðeins það sem okkur líst best á. Við getum ekki tekið það sem er orðið lélegt eða laskað, nema það sé antik,“ segir Erlingur Kristjánsson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar á Akureyri.

„Þetta rímar við það sem fram kom í vikunni um Góða hirðinn í Reykjavík sem var að opna nýja verslun í miðborginni. Þangað berst ótrúlegt magn eins og til okkar.“ 

Erlingur segir augljóst að fólk hafi gefið sér meiri tíma en áður til að fara í tiltekt og skipulagsbreytingar á heimilum eftir að Covid faraldurinn skall á. Þess vegna sé framboðið jafn mikið og raun ber vitni.

Fjölsmiðjan á Akureyri var sett á laggirnar undir lok góðærisins margumtalaða, rétt fyrir hrun 2007. Fram að hruni barst óhemju mikið af húsgögnum enda margir að kaupa nýtt, en sveiflur hafa verið í starfseminni, eftir efnahagsástandi í samfélaginu. „Fólk keypti mikið hjá okkur í töluverðan tíma eftir hrun, svo dró mjög úr sölunni frá 2015 til 2017, þegar einhvers konar góðæri virtist vera komið aftur, en undanfarið hefur salan aukist á ný. Ekki þýðir þó að bjóða hvað sem er núna; strax eftir hrun seldum við mikið af sófum sem voru örlítið skemmdir en það er ekki glæta að koma slíku út í dag. Fólk lítur ekki við því, allt þarf helst að vera eins og nýtt. En vissulega er aukinn áhugi á því að endurnýta hluti af ýmsu tagi. Það hefur færst í vöxt aftur að fólk kaupi notað.“

Erlingur tekur glaður við sem mestu, en er ekki sérlega hress með þá sem ekki fara að reglum. „Við höfum sett stórt skilti bak við hús þar sem fólk er vinsamlega beðið um að skilja ekki eftir dót nema að tala við starfsfólk, en þegar við komum til vinnu eftir helgar eru ansi oft hrúgur af dóti undir skiltinu. Oft kemur það því í okkar hlut að henda þessu, ég tala nú ekki um ef rignt hefur mikið um helgina þá er oft allt orðið ónýtt.“