Fara í efni
Fréttir

„Þetta hefur verið langur og góður ferill“

Tryggvi Jónsson og eiginkona hans, Anna Sigríður Arnþórsdóttir, gæða sér á pönnukökum hjá Baldvin H. Sigurðssyni í Flugkaffi, í boði Air Iceland Connect, eftir síðasta flug Tryggva í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Löngum og farsælum ferli Tryggva Jónssonar sem atvinnuflugmanns lauk á Akureyrarflugvelli síðdegis, þegar hann var við stjórnvölinn í vél Air Iceland Connect frá Reykjavík. Tryggvi verður 65 ára í desember.

Tryggvi ólst upp á Dalvík en hefur lengi búið á Akureyri. Hann lauk atvinnuflugmannsprófi fyrir 40 árum, í desember 1980.  „Ég byrjaði, eins og svo margir aðrir, að vinna við kennslu en hef svo komið víða við. Vann um tíma fyrir Arnarflug, Leiguflug Sverris Þóroddssonar, smávegis fyrir Leiguflug hf, var aðeins í afleysingum hjá Flugfélagi Austurlands á sínum tíma, flaug mjög mikið fyrir Mýflug og var svo búinn að vera eitt ár hjá Flugfélagi Norðurlands hér á Akureyri þegar það sameinaðist Flugfélagi Íslands.“ Hann hefur starfað hjá félaginu síðan, en það kallast Air Iceland Connect í dag.

Tryggvi segist standa sáttur upp úr flugstjórasætinu. 

„Mér líður mjög vel; það er reyndar spurning hvort ég eigi að hafa áhyggjur af því að ég hef engar áhyggjur! Þetta hefur verið langur og góður ferill og ég hlakka til að sinna mörgum áhugamálum. Byrja á því að hjálpa börnunum mínum við smíðavinnu, og svo er ég sjálfur að smíða bát. Hef reyndar átt hann lengi en við erum að endursmíða hann.“ Tryggvi segist hafa gaman af því að róa til fiskjar, „en það verður ekki snefill af atvinnumennsku á því sviði!“

Ari Fossdal, stöðvarstjóri Air Iceland Connect á Akureyrarflugvelli, afhenti Tryggva blómvönd frá félaginu og Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, var einnig mættur með glaðning. „Tryggvi var fyrsti flugmaður Mýflugs 1985. Hann kenndi mér að fljúga - kenndi mér allt sem ég kann," sagði Leifur léttur í bragði við Akureyri.net.

Áhöfnin í síðustu ferð Tryggva Jónssonar, frá Reykjavík til Akureyrar síðdegis í dag. Frá vinstri: Ragnar Friðrik Ragnars flugmaður, Ingibjörg Matthíasdóttir flugfreyja, Tryggvi Jónsson flugstjóri og Eyrún Björk Jóhannsdóttir flugfreyja.

Vel var tekið á móti Tryggva á flugvellinum í dag. Á vinstri myndinni er starfsfólk Air Iceland Connect sem var á vaktinni, með manni dagsins. Frá vinstri: Jónas Þór Sveinsson, Anfinn Heinesen, Tryggvi, Ari Fossdal stöðvarstjóri Air Iceland Connect á Akureyrarflugvelli og Elva Dögg Pálsdóttir. Á hægri myndinni eru Tryggvi og Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, en Tryggvi var fyrsti flugmaður fyrirtækisins þegar það var stofnað 1985.