Fara í efni
Fréttir

Stigabjörgunarbíll loks keyptur nýr til landsins

Bíll af því tagi sem Slökkvilið Akureyrar hefur fest kaup á.
Slökkvilið Akureyrar hefur gert samning við stigabílaframleiðandann Echelles Riffaud SA í Frakklandi um kaup á björgunarstigabíl. Bíllinn er af gerðinni Scania, með 33 metra björgunarstiga með „fingur“ og körfu sem ber fjóra einstaklinga. Einnig verður hann útbúinn fjarstýrðum slökkvistút, hitamyndavél, festingu fyrir sjúkrabörur, rafstöð og meiri aukabúnaði.
 
Scania bifreiðin mun leysa af hólmi körfubíl SA, sem orðinn er 34 ára. Sá er af gerðinni MAN og er með 28 metra lyftu.
 
Þetta verður í fyrsta skipti sem slökkvilið utan höfuðborgarsvæðisins kaupir bíl sem þennan og raunar í fyrsta skipti sem íslenskt slökkvilið festir kaup á nýjum bíl af þessu tagi - beint úr kassanum, eins og stundum er sagt.
 
Kaup bílsins eru sögð mikil tímamót í sögu Slökkviliðs Akureyrar. Það er von og trú okkar hjá Slökkviliði Akureyrar að þessi kaup verði til að efla til muna öryggi íbúa á starfssvæði SA og auka getu slökkviliðsins til að takast á við útköll bæði stór og smá,“ segir Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri.
 

Skrifað undir samning um kaup stigabílsins. Frá vinstri: Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri, Daníel Apeland, umboðsmaður Echelles Riffaud og Gunnar Rúnar Ólafsson, varaslökkviliðsstjóri.