Fara í efni
Fréttir

Áramótabrennan á sama stað og í fyrra

Brennustæðið merkt með rauðu og bílastæði með bláu. Gönguleiðir frá bílastæðum að brennu eru merktar með gulu. Mynd: akureyri.is.

Áramótabrennan á Akureyri verður á sama stað og í fyrra, á auðu svæði sunnan við golfskálann á Jaðri. Þá verður árleg flugeldasýning Björgunarsveitarinnar Súlna á klöppunum norðan leikskólans Pálmholts. Kveikt verður í brennunni kl. 20:30 á gamlárskvöld og flugeldasýningin hefst kl. 21.

Samkvæmt frétt á vefsíðu Akureyrarbæjar er um 700-800 metra gangur að brennunni frá bílastæðum, sem verða annars vegar vestan Kjarnagötu og hins vegar við golfskálann á Jaðri. Á meðfylgjandi loftmynd er búið að merkja staðsetningu brennunnar og bílastæðanna, ásamt gönguleiðum að brennunni.

Akureyrarbær hvetur íbúa til að fara varlega með skotelda um áramótin og minnir á að hirða þarf upp allt flugeldarusl. Ekki má setja flugeldaruslið með hefðbundnum heimilisúrgangi, heldur þarf að koma því í sérstaka gáma sem settir verða upp við verslanir Bónus í Naustahverfi og Langholti, sem og á grenndarstöð norðan við Ráðhúsið í Geislagötu.