Fara í efni
Fréttir

Lyfja opnuð og boðið upp á hjúkrunarþjónustu

Starfsmenn Lyfju á Akureyri. Frá vinstri: Ingvar Þór Guðjónsson lyfsali, Hugrún Birna Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur, Ragnheiður Kristín Guðmundsdóttir, lyfjatæknir Ólöf Jenný Eyland, Valgerður Lóa Gísladóttir og Sigrún Ingveldur Jónsdóttir, lyfjafræðingur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Lyfja hefur opnað apótek í Glerárgötu 34 á Akureyri. Á sama tíma er Apótekinu lokað, en Lyfja hefur rekið það um árabil í Hagkaupshúsinu við Furuvelli.

Svo skemmtilega vill til að í húsnæðinu við Glerárgötu, þar sem Lyfja er nú, var fyrsta Hagkaupsverslunin á Akureyri eftir að Pálmi heitinn Jónsson hóf landvinninga utan höfuðborgarinnar seint á sjöunda áratug síðustu aldar.

Í Lyfju verður boðið upp á hjúkrunarþjónustu. „Sú þjónusta hefur ekki verið í boði í apóteki á Akureyri til þessa. Einnig hefur notkunin á Lyfju appinu verið stöðugt að aukast og nú geta Akureyringar pantað lyf í gegnum appið og fengið heimsent án þess að greiða aukalega fyrir heimsendinguna,“ segir Ingvar Þór Guðjóns­son lyfsali. Vert er að geta þess að starfsemi Heilsuhússins, sem er í eigu Lyfju, flyst einnig í húsnæðið við Glerárgötu í breyttri mynd, en verslunin hefur lengi verið á Glerártorgi.

Lyfja hefur boðið upp á hjúkrunarþjónustu í tveimur apótekum á höfuðborgarsvæðinu, forráðamenn fyrirtækisins segja spurn eftir þjónustunni sífellt að aukast og þess vegna vilji þeir bjóða upp á hana líka nyrðra. Viðskiptavinir þurfa ekki að panta tíma hjá hjúkrunarfræðingnum en hann sinnir heilsufarsmælingum og sprautugjöf, fjarlægir sauma og aðstoðar við sáraumbúðaskipti svo að eitthvað sé nefnt. Að auki veitir hjúkrunarfæðingur ráðgjöf við val á vörum. Hjúkrunarþjónustan verður opin alla virka daga frá klukkan 9-13.

  • Á efri myndinni, sem tekin var í dag, voru að sjálfsögðu allir með grímur og á myndinni fyrir utan passað að hafa tvo metra á milli Ingvars Þórs Guðjónssonar lyfsala og Ragnheiðar Kristínar Guðmundsdóttur, lyfjatæknis og umsjónarmanns Heilsuhúss-hlutans.