Andlát: Tómas Búi Böðvarsson

Tómas Búi Böðvarsson, fyrrverandi slökkviliðsstjóri á Akureyri, er látinn á 83. aldursári. Hann fæddist á Akureyri 14. nóvember 1942 og lést á hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík 16. maí síðastliðinn.
Foreldrar Tómasar voru hjónin Böðvar Tómasson, byggingameistari á Akureyri, frá Bústöðum í Austurdal í Skagafirði, og Kristín Jóhannesdóttir, húsfreyja, frá Syðrahvarfi í Skíðadal.
Eiginkona Tómasar Búa er Ragnheiður Stefánsdóttir íþróttakennari, f. 1. júlí 1946. Foreldrar hennar voru Stefán Jasonarson, bóndi og hreppstjóri, í Vorsabæ í Flóa og Guðfinna Guðmundsdóttir, húsfreyja og bóndi.
Synir Tómasar Búa og Ragnheiðar eru tveir:
Böðvar Tómasson, MSc í byggingar- og brunavarnaverkfræði, framkvæmdastjóri og stofnandi Örugg verkfræðistofu, kvæntur Önnu Pálu Stefánsdóttur, spænskukennara við MH og leiðsögumanni. Synir þeirra eru Tómas, Stefán og Markús.
Hlynur Tómasson, BS. í rafmagns- og tölvuverkfræði og MBA, Senior Finance Business Partner hjá Demant í Kaupmannahöfn, kvæntur Rögnu Kristínu Jóhannsdóttur viðskiptafræðingi, Senior Director, Internal Controls and ERM hjá Stark Group. Börn þeirra eru Baldur Kári, Gunnar Tómas og Kristín Eva.
Tómas Búi lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri 1959, sveinsprófi í húsasmíði frá Iðnskólanum á Akureyri 1962, öðlaðist meistararéttindi í þeirri grein 1968 og lauk tæknifræðiprófi frá Göteborgs Täkniska Institut 1966. Hann stundaði nám fyrir slökkviliðsstjóra við Norges Brannskole 1974 og nám í brunavarnaverkfræði við Lunds Tekniska Högskola veturinn 1991-92. Þá sótti hann námskeið í starfsmannastjórnun við HA 2002.
Tómas var byggingatæknifræðingur hjá Byggingafulltrúa Akureyrarbæjar 1966-74, varaslökkviliðsstjóri í Slökkviliði Akureyrar á sama tíma og slökkviliðsstjóri Akureyrarbæjar 1974-2003. Tómas var tæknifræðingur á skipulagsdeild Akureyrarbæjar 2003-2006 og starfaði á eigin teiknistofu 2006-2013, einkum við brunahönnun.
Tómas var ritari í stjórn Starfsmannafélags Akureyrarbæjar 1976-78, gjaldkeri í fyrstu stjórn LÍV, Landssambands íslenskra vélsleðamanna, og fyrsti ritstjóri tímaritsins Vélsleðans 1984-86, varaformaður LÍV 1996-98, fyrsti formaður í EY-LÍV, Félagi vélsleðamanna í Eyjafirði, 1995-97 og gjaldkeri í sama félagi 1997-99. Tómas sat í stjórn Félags slökkviliðsstjóra 1994-2002 og var formaður þess frá 1997 og sat í stjórn Brunamálastofnunar ríkisins 1991-93.
Tómas tók þátt í skátastarfi á Akureyri á yngri árum og fylgdi það honum alla ævi. Hann stundaði vélsleðamennsku um áratuga skeið og á seinni árum var það húsbílamennskan sem heillaði. Tómas var félagi í Oddfellow stúkunni á Akureyri í tæp 30 ár.