Fara í efni
Fréttir

Andlát: Þórey Aðalsteinsdóttir

Þórey Aðalsteinsdóttir, leikkona og fyrrverandi framkvæmdastjóri Leikfélags Akureyrar, er látin á 86. aldursári. Hún var fædd 27. maí 1938 á Akureyri og lést í faðmi fjölskyldunnar þann 11. febrúar síðastliðinn.

Foreldrar Þóreyjar voru hjónin Aðalsteinn Tryggvason og Kristín Konráðsdóttir. Systkini hennar eru Konráð Aðalsteinsson, Fríða Aðalsteinsdóttir og Tryggvi Aðalsteinsson. Tryggvi er sá eini systkinanna sem enn er á lífi. Hann er búsettur á Akureyri. 

Eftirlifandi maður Þóreyjar er Baldur Gíslason f. 1947.

Börn Þóreyjar með fyrri eiginmanni hennar, Árna Birni Árnasyni f. 1935 eru:

Líney Árnadóttir, maður hennar er Magnús Jósefsson. Börn þeirra: Tinna, Telma, Jón Árni og Hjörtur Þór.

Kristín Sóley Árnadóttir, maður hennar er Kristinn Eyjólfsson. Börn þeira: Sif Erlingsdóttir, Almarr Erlingsson, Styrmir Erlingsson, Hrólfur Máni Kristinsson, Stefán Snær Kristinsson og Grétar Orri Kristinsson.

Aðalsteinn Árnason, kona hans er Guðrún Jóhannsdóttir. Dóttir þeirra er Guðrún Íris Úlfarsdóttir.

Laufey Árnadóttir, maður hennar er Juan Ramón Peris López. Börn þeirra: Lydia Miriam Peris Herrero og Álvaro Peris Árnason.

Þórey Árnadóttir, maður hennar er Höskuldur Þór Þórhallsson. Börn þeirra: Steinunn Glóey Höskuldsdóttir, Fanney Björg Höskuldsdóttir og Þórhallur Árni Höskuldsson.

Langömmubörn Þóreyjar eru 16.

Þórey var fædd og uppalin á Akureyri og bjó þar með Árna Birni og börnum þeirra þar til þau skildu árið 1991. Árið 1997 flutti Þórey til Reykjavíkur þegar hún hóf sambúð með Baldri.

Þórey lifði og hrærðist innan leikhússheimsins nær alla sína starfsævi. Lengst af hjá Leikfélagi Akureyrar sem leikkona og fjármála- og framkvæmdastjóri. Hún lék um 60 hlutverk hjá LA, það fyrsta 17 ára gömul árið 1955 og síðasta hlutverk hennar á sviðinu var árið 1997. Sama ár lét hún af starfi framkvæmdastjóra LA.

Starfsferlinum lauk Þórey sem miðasölustjóri hjá Þjóðleikhúsinu árið 2008. Hún lagði af mörkum til samfélagsins með virkri þátttöku í Soroptimistaklúbbi Akureyrar og á seinni árum sinnti hún sjálfboðaliðastörfum hjá Rauða krossinum. 

Útför Þóreyjar fer fram frá Neskirkju í Reykjavík næstkomandi þriðjudag, 20. febrúar kl. 13.00.