Fara í efni
Fréttir

Andlát: Rúnar Heiðar Sigmundsson

Rúnar Heiðar Sigmundsson viðskiptafræðingur á Akureyri er látinn níræður að aldri. Hann fæddist í Árneshreppi á Ströndum norður 8. apríl 1933 og lést á heimili sínu á Akureyri síðastliðinn föstudag, 8. september.

Rúnar Heiðar var sonur bændahjónanna Sigrúnar Guðmundsdóttur og Sigmundar Guðmundssonar og bjó fyrstu árin í Árnesi í Trékyllisvík uns fjölskyldan hóf eigin búskap að Melum í sömu sveit sumarið 1939. Systkini Rúnars eru Elísabet, Guðmundur og Sveinn, sem er þeirra elstur og lifir hann systkini sín.

Rúnar naut í fyrstu farandkennslu í heimasveitinni, gekk í Finnbogastaðaskóla og síðar Reykjaskóla í Hrútafirði uns hann hélt í Menntaskólann á Akureyri og varð þaðan stúdent 1955. Á menntaskólaárunum kynntist hann lífsförunauti sínum, Helgu Sigfúsdóttur og varð þeim fjögurra barna auðið, Gunnar Örn fæddist 1956, Sigrún 1957, Sigmundur Ernir 1961 og Guðrún Sigfríð 1967. Helga lést 2017.

Rúnar fór í framhaldsnám við Háskóla Íslands og lauk þaðan prófi í viðskiptafræði, en settist svo að á Akureyri þar sem hann starfaði í byrjun sem skrifstofustjóri á Skattstofunni á Akureyri, en lengst af gegndi hann svo stöðu umdæmisstjóra Flugmálastjórnar á Akureyri og bar ábyrgð  á rekstri allra flugvalla á Norðurlandi, allt frá Blönduósi að Vopnafirði.

Síðustu starfsárin vann Rúnar á eigin bókhaldsskrifstofu og lét ekki af störfum þar fyrr en vel á níræðisaldri.

Rúnar var alla sína ævi mikill útivistarmaður og umhverfisverndarsinni. Hann lagði mikið kapp á fjallgöngur og óbyggðaferðir og keppti áratugum saman á gönguskíðum, jafnt heima og erlendis, en tvívegis tók hann þátt í Vasagöngunni í Svíþjóð sem er lengsta og fjölmennasta almenningsganga í heimi og kemur skíðafólk hvaðanæva að úr heiminum til að spreyta sig á þessari 90 kílómetra áskorun.

Þá var Rúnar virkur í starfi Sjóstangaveiðifélags Akureyrar og keppti á mótum þess og annarra sjóstangaveiðifélaga á landinu um langa hríð. Hann var gerður að heiðursfélaga í SjóAk 2014.