Andlát: Margrét Heinreksdóttir
Margrét Jóhanna Heinreksdóttir, áður Margrét Rasmus Bjarnason, lést á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð á Akureyri 3. desember síðastliðinn, á nítugasta aldursári. Hún starfaði m.a. sem blaðamaður á Morgunblaðinu og fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, var framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands um tíma og lauk starfsævinni sem lektor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri.
Margrét var fædd 1. apríl 1936 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Ástríður Anna Guðmundsdóttir húsmóðir og verslunarmaður, f. 7.3. 1917 í Reykjavík, d. 18.2. 1944 og Hendrik Rasmus, skrifstofumaður og hljóðfæraleikari, f. 6.5. 1911 í Reykjavík, d. 4.8. 1991.
Stjúpfaðir Margrétar var Guðjón Lárus Jónsson, f. 3.9. 1915, d. 14.10. 1988 og fósturforeldrar voru Aðalheiður Jóna Guðmundsdóttir söngkona, f. 2.6. 1922, d. 02.06.2022 og Sveinn Sigurður Einarsson verkfræðingur, f. 9.11. 1915, d. 19.6. 1988.
Sammæðra hálfsystkini eru Guðmundur Júlíus Lárusson, f. 01.08.1942, d.09.03.2023 og Anna Lárusdóttir, f. 28.01.1944. Samfeðra hálfsystkini eru Hugó Rasmus, f. 26.12.1952 Tómas Rasmus, f. 04.09.1954 og Steinunn Rasmus, f. 13.07.1956. Fóstursystkini eru Einar Sveinsson, f. 28.03.1945 og Anna Júlíana Sveinsdóttir, f. 07.10.1949.
Maki Margrétar var Oddur Jón Bjarnason, f. 10.4. 1935 en þau skildu.
Dætur Margrétar og Odds eru Anna Heiður Oddsdóttir, f. 12.9. 1957 og Embla Eir Oddsdóttir, f. 31.12.1968. Barnabörn eru Fjóna Fransiska Ford, f. 25.06.1984, Alexandra Ýrr Ford, 20.03.1993 og Robert Tandri Francis, f. 23.06.1992. Langömmubarn er Rafael Rúnar Robertsson Francis, f. 17.08.2025.
Margrét var með stúdentspróf frá stærðfræðideild Menntaskólans í Reykjavík 1955 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1986 en einnig nam hún heimspeki, þýsku og frönsku við HÍ 1955–1956 og íslensku 1957-1958 og 1969-1970. Margrét lauk meistaranámi í alþjóðlegum mannréttindalögum (LLM) frá lagadeild Háskólans og Raoul Wallenberg stofnuninni í Lundi í Svíþjóð 1999. Margrét tók ýmis námskeið í gegnum tíðina s.s. í ensku og enskum bókmenntum við University of London 1965; námskeið í fjölmiðlun í samfélagi nútímans við Goethe Institut í München 1976; og námskeið um Evrópubandalagið við Gustav Streseman Institut í Bonn 1991.
Á árunum 1955-1959 var Margrét skrifstofumaður hjá Olíufélaginu Skeljungi, VR og á ríkisspítölum en á árunum 1959-1975 var hún blaðamaður á Morgunblaðinu. 1968-1969 var Margrét ritstjóri kvennablaðsins Hrundar. Þá var hún fréttamaður hjá RÚV-hljóðvarpi 1975–1977 og hjá RÚV-Sjónvarpi 1982–1984 og 1986–1987. Eftir að lögfræðinámi lauk var Margrét dómarafulltrúi hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og sýslumanni Kjósarsýslu 1987–1990. Hún var settur héraðsdómari á Keflavíkurflugvelli og í Borgarnesi 1990–1992. Þá var hún lögfræðingur hjá embætti Sýslumanns í Hafnarfirði 1992–2001 og starfsmaður UNIFEM í Kósóvó 2002-2003. Margrét var sérfræðingur í mannréttindamálum og varð framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands. Hún réðst til Félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri þar sem hún starfaði til starfsloka.
Margrét var í stjórn starfsmannafélags RÚV-Sjónvarps 1976–1977; stjórnarformaður Íslandsdeildar Amnesty International 1977–1980; í stjórn BHMR 1988–1990; stjórnarformaður Stéttarfélags lögfræðinga í ríkisþjónustu (SLÍR) 1988–1990; stjórnarformaður Hjálparstofnunar kirkjunnar 1990–1996; í skipulagsstjórn ríkisins 1990–1997; í kærunefnd Jafnréttisráðs frá 1991; í stjórn Grænlandssjóðs 1989–1993; varamaður í bankaráði Seðlabanka Íslands 1990–1998; fulltrúi Hjálparstofnunar kirkjunnar; í stjórn Mannréttindastofu Íslands frá stofnun hennar 1994 og stjórnarformaður 1995–1998.
Margrét ferðaðist víða um heiminn, ekki síst vegna vinnu sinnar og kom m.a. til Bandaríkjanna, Rússlands, Kína og Afríku, auk fjölmargra annarra staða.