Andlát: Magnús Björnsson

Magnús Björnsson, fyrrverandi starfsmaður Landsbankans á Akureyri og formaður KA, er látinn á 97. aldursári. Magnús fæddist á Ísafirði 1. nóvember 1928 og lést 5. maí síðastliðinn á Akureyri.
Magnús var sonur hjónanna Þrúðar Ingibjargar Jónsdóttur húsmóður og Björns Magnússonar símstöðvarstjóra og útgerðarmanns á Ísafirði. Systkini Magnúsar voru Jón, Guðrún og Guðný sem öll eru látin.
Magnús kvæntist Þórunni Sigurbjörnsdóttur árið 1953. Þórunn, sem fædd er 12. febrúar 1932 á Akureyri, lifir mann sinn. Hún starfaði lengst af við kennslu í Barnaskóla Akureyrar. Foreldrar Þórunnar voru Sigurbjörn Þorvaldsson bifreiðastjóri og Steinunn Ingibjörg Jónsdóttir húsmóður.
Börn Magnúsar og Þórunnar eru Björn sem kvæntur er Sveinbjörgu Sveinsdóttur, Steinar sem kvæntur eru Birnu Margréti Arnþórsdóttur, Sigríður María og Guðmundur, sem kvæntur er Maríu Björgu Vigfúsdóttur.
Þegar Magnús var á fjórða ári missti hann föður sinn og í kjölfarið flutti móðir hans með tvö yngstu börnin, Magnús og Guðnýju, frá Ísafirði til Akureyrar.
Magnús nam við Samvinnuskólann í Reykjavík en eftir útskrift þaðan 1946 lá leiðin aftur til Akureyrar. Þar starfaði hann fyrst um sinn hjá bókaverslun Axels Kristjánssonar en var síðan ráðinn til Landsbanka Íslands og starfaði þar í 42 ár, til vors 1997 þegar Magnús var kominn vel á 69. aldursár.
Á yngri árum lagði Magnús stund á margar íþróttagreinar; keppti m.a. í frjálsum íþróttum, fimleikum og handknattleik fyrir hönd KA. Hann var formaður KA 1951-1952 og var alla tíð mikill áhugamaður um félagið og gengi þess. Magnús var virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins og sat í ýmsum ráðum og nefndum á vegum flokksins. Hann átti langan starfsaldur í Frímúrarareglunni á Akureyri og gegndi þar trúnaðarstörfum. Þá var hann formaður Félags verslunar og skrifstofufólks á Akureyri 1953-1954.