Fara í efni
Fréttir

Andlát: Kristinn Páll Einarsson

Kristinn Páll Einarsson, fyrrverandi lögregluþjónn, er látinn á 73. aldursári. Hann fæddist 27. apríl 1949 í Reykjavík og ólst þar upp en bjó á Akureyri frá 1975. Kristinn lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 22. mars eftir baráttu við erfið veikindi.

Sóley Guðmundsdóttir, eiginkona Kristins Páls til rúmlega 50 ára, lifir mann sinn. Börn þeirra eru Halldór Sveinn fæddur 1971, Kristinn Freyr fæddur 1974, Sigríður Ósk fædd 1976 og Davíð Már fæddur 1986.

Kristinn fór til sjós 15 ára gamall og starfaði á fiski- og flutningaskipum í átta ár. Hann lauk 3. stigs farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1971 en hóf störf hjá Lögreglunni í Reykjavík 1972. Kristinn lauk prófi frá Lögregluskóla Ríkisins 1974, fluttist til Akureyrar árið eftir og hóf störf hjá Lögreglunni á Akureyri þar sem hann starfaði í rúm 35 ár.

Í sumar- og vetrarleyfum starfaði Kristinn á ýmsum flutninga- og fiskiskipum. Í nokkur ár kringum aldamótin starfaði hann hjá Vegagerðinni sem vegaeftirlitsmaður um allt land en snéri síðan aftur til lögreglunnar á Akureyri. Síðustu þrjú árin áður en hann fór á eftirlaun 65 ára starfaði Kristinn sem boðunarmaður Sýslumanns.

Kristinn sinnti ýmsum stjórnar- og félagsstörfum. Meðal annars var hann einn af stofnendum Lögreglufélags Akureyrar og starfaði þar sem gjaldkeri, meðstjórnandi og formaður. Hann var stjórnarmaður Lánasjóðs Stýrimannaskólans, ritari Lyftingafélags Akureyrar og var í Knattspyrnuráði Akureyrar.

Kristinn Páll verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju 1. apríl klukkan 13.00.