Fara í efni
Fréttir

Andlát: Kári Árnason íþróttakennari

Kári Árnason íþróttakennari og fyrrverandi knattspyrnumaður er látinn, áttræður að aldri. Kári fæddist á Akureyri 25. febrúar 1944 og lést  á dvalarheimilinu Hlíð 2. júlí síðastliðinn.

Eiginkona Kára er Ásdís Þorvaldsdóttir, fædd 6. febrúar 1944. Dætur þeirra eru þrjár: 1) Elva María klæðskeri, f. 1964, gift Bernharði Valssyni, ljósmyndara. Synir þeirra eru Breki og Starri. 2) Katrín kaupmaður, f. 1969, gift Jóni Ingva Árnasyni, sparisjóðsstjóra. Synir þeirra eru Baldur, Freyr og Kári. 3) Erna f. 1971. Dóttir hennar er Hulda Dís Aðalsteinsdóttir leikskólastjóri.

Foreldrar Kára voru Ingunn Elísabet Jónsdóttir og Árni Friðriksson. Kári var fjórði í röðinni af fimm alsystkinum. Hin eru Kolbrún Árnadóttir f. 1939, tvíburarnir Friðrik Árnason og Ólöf Erla Árnadóttir f. 1941 og Einar Árnason f. 1947. Ólöf Erla er látin.

Hálfsystkini Kára voru Rósa Árnadóttir f. 1929 og tvíburarnir Kristján Árnason og Svanhildur Árnadóttir f. 1933.

Kári hóf nám í íþróttakennaraskóla Íslands árið 1963 og starfaði sem kennari alla sína starfstíð. Hann var kunnur knattspyrnumaður, marksækinn framherji sem lék með KA og liði Íþróttabandalags Akureyrar og varð bikarmeistari með ÍBA árið 1969. Kári lék 11 sinnum A-landsliði Íslands á árunum 1961 til 1971.