Fara í efni
Fréttir

Andlát: Ingvi Rafn Jóhannsson

Ingvi Rafn Jóhannsson, rafvirkjameistari og söngvari, er látinn, 94 ára að aldri. Ingvi Rafn fæddist á Akureyri 1. janúar 1930 og lést síðastliðna nótt.

Eiginkona Ingva Rafns, Sólveig Jónsdóttir, lést árið 2002. Börn þeirra eru átta: 1) Þorbjörg, eiginmaður hennar er Ólafur Tr. Kjartansson, 2) Sólveig Sigurrós, 3) Svanfríður, eiginmaður hennar var Pétur Einarsson sem lést 2020, 4) María Björk, eiginmaður hennar er Ómar Bragi Stefánsson, 5) Katrín Elfa, 6) Eyrún Svava, eiginmaður hennar er Hólmar Erlu Svansson, 7) Jóhann Ólafur, eiginkona hans er Gunnhildur Arnarsdóttir, 8) Ingvi Rafn, kona hans er Ruth Viðarsdóttir.

Foreldrar Ingva Rafns voru hjónin Jóhann Ó. Haraldsson tónskáld og endurskoðandi KEA, og Þorbjörg Stefánsdóttir. Seinni kona Jóhanns og stjúpmóðir Ingva Rafns var María Kristjánsdóttir.

Ingvi Rafn ólst upp á Akureyri til sex ára aldurs en fluttist þá til fósturforeldra sinna á Þelamörk; það voru Anna Soffía Jónsdóttir og Baldvin Sigurðsson að Ási 1936-1942 og Sverrir Baldvinsson og Álfheiður Ármannsdóttir í Skógum 1942-1946. Þegar Ingvi hóf nám í Iðnskólanum á Akureyri 1947 flutti hann til föður síns og stjúpmóður.

Ingvi Rafn lauk prófi frá Iðnskólanum á Akureyri 1951, sveinsprófi í rafvirkjun 1953 og fékk meistarabréf 1957. Árið 1954 hóf hann sjálfstæðan atvinnurekstur með öðrum en frá 1961 til 1994 rak hann eigið fyrirtæki, Raftækni. Ingvi Rafn var formaður Rafvirkjafélags Akureyrar 1953-1957, formaður Rafvirkjameistarafélags Akureyrar og síðar Félags rafverktaka á Norðurlandi í 13 ár. Hann sat í stjórn LÍR í níu ár og var einnig formaður í Norðlenskum rafverktökum hf., lengst af frá stofnun þess 1982. 

Ingvi Rafn starfaði í kórum á Akureyri óslitið frá árinu 1951 til 2017, fyrst í Kantötukór Akureyrar, síðan í Karlakór Akureyrar í 17 ár, þar sem hann var lengst af í stjórn og formaður í eitt ár. Frá 1973 starfaði Ingvi Rafn í Karlakórnum Geysi og var einnig formaður þar. Árið 1990 sameinuðust Karlakór Akureyrar og Karlakórinn Geysir og starfaði Ingvi Rafn þar til ársins 2010 og var hann fyrsti formaður nýs sameinaðs kórs.