Fara í efni
Fréttir

Andlát: Helgi Vilberg Hermannsson

Helgi Vilberg Hermannsson, listamaður og skólastjóri Myndlistaskólans á Akureyri, er látinn 73 ár að aldri. Helgi fæddist á Akureyri 7. nóvember 1951 og lést á sunnudaginn, 10. ágúst.

Eiginkona Helga er Soffía Sævarsdóttir. Börn þeirra eru Rannveig sem gift er Stefáni Boulter, Ýr sem er gift Jóhanni G. Heiðarssyni og Helgi Vilberg, hann er kvæntur Katrínu Ernu Gunnarsdóttur. 

Foreldrar Helga Vilbergs voru Helga Hrönn Unnsteinsdóttir og Hermann Hólm Ingimarsson. Helgi heitinn átti tvö systkini, Hugrúnu Sif Hermannsdóttur og Unnstein Hólm sem lést 1954, aðeins eins árs.

Helgi Vilberg stundaði listnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk þaðan kennaraprófi 1973. Hann var kennari við Glerárskóla og Oddeyrarskóla 1973-1977, sat í skólastjórn Myndsmiðjunnar 1973-1974 og stofnaði Myndlistaskólann á Akureyri 1974 ásamt Aðalsteini Vestmann og Úllu Árdal. Helgi varð skólastjóri þar 1977 og stýrði skólanum í hálfan fimmta áratug – allt til vors 2022 þegar hann lét af störfum vegna veikinda.

Fyrsta einkasýning myndlistarmannsins Helga Vilbergs var í Hlíðarbæ 1975 og urðu alls sex; í Gallerí Háhól 1978, Slúnkaríki 1985, Gallerí Glugga 1987, Listasafninu á Akureyri 1994 og í Samlaginu - Listhúsi 2006. Að auki tók hann þátt í fjölmörgum samsýningum heima og erlendis.

Helgi Vilberg sat í ýmsum stjórnum og nefndum í gegnum árin, var td. gjaldkeri Gilfélagsins 1991-1993, formaður byggingarnefndar Gilfélagsins á sama tíma og ráðgjafi nefndar Akureyrarbæjar um Listasmiðstöðina í Grófargili 1992-1994. Helgi var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í menningarmálanefnd Akureyrar um tíma, sat einnig í stjórn Minjasafnsins á Akureyri, var fulltrúi í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, ritari, varaformaður og formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, ritari fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna á Akureyri og forseti Rótarýklúbbs Eyjafjarðar.

Sem strákur lék Helgi Vilberg á gítar og var einn fjögurra stofnenda hljómsveitarinnar Bravó árið 1964, þá 13 ára og sá elsti í sveitinni. Bravó er mörgum minnisstæð fyrir að hafa hitað upp fyrir eina vinsælustu rokkhljómsveit heims, Kinks frá Bretlandi, fjögur kvöld í röð í Austurbæjarbíói í Reykjavík. Tónleikarnir voru átta, tvennir hvert kvöld. Þetta var í september 1965, skömmu fyrir 14 ára afmæli Helga.

Hljómsveitin Bravó sem hitaði upp fyrir bresku rokkarana í Kinks í september árið 1965. Fremstur er trommarinn Þorleifur Jóhannsson, sem lést árið 2020. Standandi eru, frá vinstri, Sævar Benediktsson, Kristján Guðmundsson og Helgi Vilberg. Mynd: Gunnlaugur P. Kristinsson