Fara í efni
Fréttir

Andlát: Gísli Jónsson fv. framkvæmdastjóri

Gísli Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri á Akureyri, er látinn eftir erfið veikindi, 78 ára að aldri. Gísli fæddist á Akureyri 28. júní 1945 og lést í gær, mánudaginn 11. desember.

Foreldrar Gísla voru Jón Eysteinn Egilsson forstjóri og Margrét Gísladóttir húsmóðir. Systkini Gísla eru Fanný fædd 1947, Egill fæddur 1949 og Sigríður fædd 1951, sem öll lifa bróður sinn.

Eiginkona Gísla var Þórunn Kolbeinsdóttir hjúkrunarfræðingur, fædd 23. ágúst 1943. Þórunn lést á síðasta ári. Foreldrar hennar voru Kolbeinn Kristófersson prófessor og yfirlæknir og Álfheiður Óladóttir húsmóðir.

Börn Gísla og Þórunnar eru: 1) Kolbeinn, fæddur 1964, búsettur í Svíþjóð, dóttir hans er Bára. 2) Margrét, fædd 1969, búsett á Akureyri. Sambýlismaður hennar er Stefán Hrólfsson. Börn Margrétar eru Þórunn Ósk, Jón Kristinn og Gísli Freyr. 3) Jón Egill, fæddur 1972, búsettur á Akureyri, kvæntur Erlu Matthíasdóttur sem er fædd 1972. Börn þeirra eru Kristófer og Katrín.

Gísli hóf störf hjá Landsbanka Íslands á Akureyri árið 1963 og starfaði þar þangað til þau Þórunn fluttu til Reykjavíkur 1967. Gísli var þá ráðinn gjaldkeri nýstofnaðs Sparisjóðs alþýðu og síðar skrifstofustjóri Alþýðubankans. Því starfi sinnti hann þar til 1976 þegar hjónin fluttu til Akureyrar á ný.

Gísli tók við rekstri Ferðaskrifstofu Akureyrar og Sérleyfisbíla Akureyrar af föður sínum – og var gjarnan kallaður Gísli á ferðaskrifstofunni. Gísli starfaði við þann rekstur til 1993 en tók þá við umboði Happdrættis háskólans á Akureyri og fleiri umboðum; m.a. Heimsferða, Tryggingamiðstöðvarinnar og happdrættis DAS, en seldi þann rekstur árið 2008.

Gísli kom að rekstra margra fyrirtækja í gegnum tíðina. Hann átti m.a. og rak Sjallann í nokkur ár og kom að rekstri Hótels Norðurlands sem einn eigenda.