Fara í efni
Fréttir

Andlát: Eyjólfur Ágústsson

Eyjólfur Steinn Ágústsson, prentari og bílasali, er látinn eftir erfið veikindi, á 71. aldursári. Hann fæddist 31. ágúst 1951 og lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri sunnudaginn 3. apríl síðastliðinn.

Eiginkona Eyjólfs er Sigríður Sigurþórsdóttir. Sonur þeirra er Sigurður Skúli, kvæntur Huldu Frímannsdóttur og eru börn þeirra Manúela, Birnir og Rúrik.

Foreldrar Eyjólfs voru Helga Jóhanna Ágústsdóttir og Ágúst Georg Steinsson. Þau eignuðust fimm syni og var Eyjólfur þeirra yngstur. Hinir eru Baldur f. 1933, d. 2019, Vilhelm Ágúst, f. 1937, Birgir Valur, f. 1939 og Skúli Gunnar, f. 1943

Eyjólfur lærði prentverk hjá POB, Prentverki Odds Björnssonar, og starfaði þar í nokkur ár en lengstum við bílasölu hjá Höldi. Hann hóf störf hjá bræðrum sínum, Skúla, Vilhelm og Birgi, fljótlega eftir að Höldur var stofnaður um miðjan áttunda áratuginn og lauk starfsævinni þar árið 2019.

Eyjólfur var kunnur knattspyrnumaður á sínum tíma og lék í mörg ár í meistaraflokki, fyrst með ÍBA og síðan KA. Hann varð bikarmeistari árið 1969 með ÍBA og var kjörinn Knattspyrnumaður Akureyrar 1978.

Útför Eyjólfs Ágústssonar verður frá Akureyrarkirkju miðvikudaginn 13. apríl klukkan 13.00.

Eyjólfur Ágústsson þegar hann var kjörinn Knattspyrnumaður Akureyrar árið 1978. Ljósmynd: Ragnar Þorvaldsson.